Fimmtudagur 15. maí 2014

Vefþjóðviljinn 135. tbl. 18. árg.

Getur verið að hið fellda föndur við hverfaskipulag hafi kostað almenning yfir 100 milljónir króna?
Getur verið að hið fellda föndur við hverfaskipulag hafi kostað almenning yfir 100 milljónir króna?

Fjölmiðlar hafa lítt gengið eftir skýringum á því hvers vegna meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar í borgarráði felldi eigin tillögur um það sem nefnt hefur verið hverfaskipulag.

Áður höfðu fulltrúar meirihlutaflokkanna samþykkt tillöguna í umhverfis- og skipulagsráði.

En er nokkur skaði skeður?

Kristinn Karl Brynjarsson bendir á það í grein í Morgunblaðinu í dag að þetta sjálfsmark Samfylkingarflokkanna hefur kostað borgarbúa stórfé.

Nú er það ekki svo að tillögur þessar hafi fallið af himnum ofan á borð umhverfis- og skipulagsráðs. Heldur býr að baki þeim töluverð vinna arkitekta og annarra og lætur nærri að sá kostnaður sem nú þegar er fallinn á borgina, sé á bilinu 150-160 milljónir króna.

Sáu Samfylkingin og Björt framtíð aldrei ástæðu til að stöðva þessa vinnu, sem þau hafa nú gefið falleinkunn, á meðan hún fór fram? Til dæmis eftir að 25 milljónir voru farnar í súginn? Eða kannski þegar búið var henda 75 milljónum út um gluggann?

Því miður virðist það ráðandi sjónarmið í borgarstjórninni að skipulagsmál séu hafin yfir smámál eins og þá staðreynd að fjármunir borgarsjóðs eru fengnir úr vösum borgarbúa og skattgreiðendur verðskuldi að farið sé með þessa fjármuni af sæmilegri gætni.