Miðvikudagur 14. maí 2014

Vefþjóðviljinn 134. tbl. 18. árg.

Það er ekki útfærslan heldur grundvallaratriðið sem er að tillögunum.
Það er ekki útfærslan heldur grundvallaratriðið sem er að tillögunum.

Það er margt sagt um skuldalækkunartillögur stjórnvalda, og margt af því er í grundvallaratriðum rangt.

Það er mjög hæpið hjá stuðningsmönnum tillagnanna að orðið hafi almennur forsendubrestur lántaka. Verðtryggð fasteignalán eru almennt til 25 – 40 ára. Dettur einhverjum í hug í alvöru, að það hafi beinlínis verið forsenda lántöku hins almenna skuldara, að aldrei á því tímabili yrði verðbólguskot eins og segja má að hafi orðið fyrir nokkrum árum? Dettur einhverjumí hug í alvöru að það hafi verið forsenda þess, að menn hafi tekið lán, sem greiða ætti af allt fram á miðja öldina, að verðlag hækkaði aldrei að ráði umfram opinber verðbólgumarkmið? Sú verðlagshækkun sem varð, er alls ekki óvenjuleg þegar horft er til lengri tíma, og auðvitað verða menn að horfa til lengri tíma, þegar menn tala um lán sem á að borga á einhverjum áratugum.

Í öðru lagi, og það skiptir auðvitað enn meira máli, er rangt að slíkur forsendubrestur sé mál sem skattgreiðendur eigi að bæta. Jafnvel þótt menn samþykktu að tugþúsundir manna hafi tekið lán, á þeim forsendum að verðlag hækkaði ekki umfram einhverja tiltekna tölu, og að ella væri forsendubrestur, þá væri sá forsendubrestur á milli lántakans og lánveitandans. Lántaki sem orðið hefur fyrir forsendubresti, getur átt kröfu á lánveitandann um breytingu á skilmálum, riftun láns eða slíkt. En hann á ekki kröfu á skattgreiðendur.

Þetta eru tvö grundvallaratriði, sem auðvitað ættu að gera það að verkum að hætt yrði við málið.

Það er hins vegar rangt hjá andstæðingum málsins, miðað við annan málflutning þeirra, að það sé galli á tillögunum að þær bæti hag þeirra sem ekki þurfa á því að halda. Ef menn samþykkja grunvallarforsendurnar, að orðið hafi forsendubrestur og að skattgreiðendur eigi að bæta hann, þá á það auðvitað við alla þá sem orðið hafa fyrir „forsendubrestinum“.

Það er ekki útfærslan heldur grundvallaratriðið sem er að tillögunum.