Vefþjóðviljinn 133. tbl. 18. árg.
Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur skilað áliti á frumvarpi til laga um „leiðréttingu“ verðtryggðra fasteignaveðlána.
Þar tekur Pétur tvö dæmi um hve óréttlátar þessar aðgerðir eru:
Skuldalækkunaraðgerðir frumvarpsins eru í mörgum tilvikum óréttlátar. Taka má dæmi af tvennum hjónum sem byggjast á upplýsingum Þjóðskrár Íslands um þróun fasteignaverðs og verðlagsupplýsingum frá Hagstofu Íslands.
Hjón A keyptu fjögurra herbergja 120 m2 íbúð fyrir rúmum 15 árum, þ.e. í mars 1999. Kaupverðið var 10 millj. kr. en þar af voru 8 millj. kr. fjármagnaðar með láni til 40 ára (húsbréfum). Vegna verðbólgu hafa eftirstöðvar lánsins (án afborgana) hækkað um 126%. Á sama tíma hefur verðmæti fasteignarinnar að jafnaði hækkað um 269%. Þessi hjón hafa hagnast á hækkun fasteignaverðs umfram verðlag (og umfram eftirstöðvar áhvílandi láns) frá að þau keyptu íbúðina sína. Eftir 15 ár skulda þau um 83% af raunvirði lánsins að gefnum 5% raunvöxtum.
Hjón B keyptu sams konar fjögurra herbergja 120 m2 íbúð í sömu blokk og hjón A í janúar 2008, þ.e. fyrir rúmum sex árum. Fyrir íbúðina greiddu þau 32,7 millj. kr. og fjármögnuðu 80% kaupverðsins með láni að fjárhæð 26,2 millj. kr. Frá janúar 2008 til mars 2014 hækkaði verðmæti íbúðarinnar einungis um 4,2 millj. kr., þ.e. um 13% eða í 36,9 millj. kr. Eftirstöðvar lánsins hafa hins vegar hækkað um 12,8 millj. kr. í 38,9 millj. kr. Því eru eftirstöðvar lánsins orðnar hærri en sem nemur verðmæti íbúðarinnar og allt eigið fé hjóna B er brunnið upp og gott betur.
Að kalla það „leiðréttingu“ að þeir sem stórgrætt hafa á sínum fasteignakaupum fái bætur frá skattgreiðendum eru hrein öfugmæli og misþyrming á málinu.
Og líkt og Pétur bendir á þá skiptir „leiðréttingin“ fyrir þá sem keyptu rétt fyrir hrun jafnframt litlu máli. Hjónin í dæmi B hafa tapað svo miklu að „leiðréttingin“ skiptir ekki sköpum.
Álit Péturs er stutt en greinargott yfirlit yfir flesta þá galla sem á málinu eru og jafnframt hvað mætti gera í staðinn; lækka skatta og skuldir ríkissjóðs sem ella eru skattahækkanir sem núverandi kynslóðir senda þeim næstu.