Norski sóttvarnalæknirinn: Svíar ólu síður á ótta

Svíar leiðbeindu fólki frekar en að hóta refsingum

Sænska hagstofan metur umframdauðsföll í Svíþjóð einna minnst í faraldrinum í Evrópu. Svenska Dagbladet bar þetta mat nýlega undir Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svía í faraldrinum. 

Menn mega ekki gleyma að margir létust í faraldrinum. Það er hræðilegt, ekki síst fyrir aðstandendur og aðra sem það snerti beint. Svo það er gott að temja sér auðmýkt gagnvart þessum tölum. Umframdauði er ekki fullkominn mælikvarði. Hann er ansi háður því hvernig þjóðir eru saman settar. En hvað sem því líður þá kemur Svíþjóð vel út á þennan mælikvarða. Menn verða hins vegar að líta heildarmyndina af lýðheilsunni. Hvað með aðra sjúkdóma, tókst okkur til dæmis að greina krabbamein sem fyrr. Hver verða langtímaáhrif faraldursins á borð við langvarandi Covid lasleika. Þetta eru nokkur dæmi um það sem einnig þarf að vega og meta. 

Óhætt er að segja að Tegnell haldi hér sínu striki frá því í upphafi faraldurs. Hann lagði ætíð áherslu á að menn þyrftu að líta á heildarmyndina. Það myndi taka mörg ár og væri flókið að gera upp áhrifin af faraldrinum. 

Kannski má segja að hann hafi ætíð varað við þeirri einfeldningslegu nálgun sóttvarnayfirvalda og fjölmiðla í flestum öðrum löndum að líta á fjölda greindra smita og skráð dauðsföll með/vegna Covid sem algildan mælikvarða. Heildarmyndin er miklu flóknari. Reikna þarf með neikvæðum áhrifum lokana á efnahag, félagslíf, námsframvindu, andlega líðan o.s.frv. Svíþjóð er kannski besta dæmið um að þetta er ekki einfalt dæmi. Margir héldu og halda sjálfsagt enn að Svíar hafi farið illa út úr faraldrinum því þeir beittu ekki almennum lokunum. Nú bendir hins vegar flest til annars. 

Hvers vegna löstuðu menn sænsku leiðina?

Í kjölfarið á viðtalinu við Tegnell ræddi Svenska Dagbladet við Preben Aavitsland sem tók við sem sóttvarnalæknir Noregs haustið 2022. Aavitsland segist hafa hugsað mikið um Svía og hvers vegna þeir urðu fyrir jafn harðri gagnrýni frá sóttvarnayfirvöldum í öðrum löndum og raun bar vitni. (Íslensk sóttvarnayfirvöld létu þar ekki sitt eftir liggja.)

Ég held það sé vegna þess að allir voru óöruggir um hver væru rétt viðbrögð við faraldrinum. Engu að síður kusu nær allir að fara í miklar og langar lokanir snemma í faraldrinum. Þessi leið var mörkuð af Ítölum sem tóku hana upp eftir kommúnískum harðstjórum í Kína. Menn vildu ekki hafa þennan samanburð við Svíþjóð. Svíar gerðu það erfiðara fyrir aðra að halda því fram að aðeins væri ein leið möguleg. Fyrir þessa kollega hefði verið þægilegra ef Svíar hefðu gert eins og allir aðrir. Menn reyndu að fela eigið óöryggi með því að lasta Svía.

Ótrúlegt þol fyrir aðgerðum

Svo nefnir Aavitsland hve hart var gengið á réttindi fólks í flestum löndum. 

Það er nánast óhugnanlegt hvað almenningur lætur bjóða sér án þess að andæfa. Við bönnuðum fjölskyldum að heimsækja ömmuna á hjúkrunarheimili, við meinuðum feðrum að vera viðstaddir fæðingu barna sinna, við takmörkuðum fjölda gesta í jarðarförum. Kannski er fólk tilbúið til að fallast á mjög harðar takmarkanir ef óttinn er nægilega mikill. Harðar aðgerðir gefa líka til kynna að ógnin sé mikil sem nærir óttann. Þegar skólum er lokað dregur almenningur þá ályktun að hættan sé veruleg, jafnvel fyrir börn.

Aavitsland segir að Anders Tegnell og sænsk sóttvarnayfirvöld hafi síður alið á ótta en þau norsku. Svíarnir leiðbeindu fólki frekar en að hóta refsingum.