Grái herinn fer í geitarhús ullar að biðja

Grái herinn ætlar að leita til Strassborgar um fjárframlög úr ríkissjóði Íslands.

Grái herinn stefndi ríkinu fyrir dóm vegna „skerðingar“ ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Hæstiréttur hafnaði í dag kröfum félagsins með þremur dómum.

Í Kastljósi 13. janúar 2020 skýrðu tveir fulltrúar hersins (þrír þegar umsjónarmaður Kastljóssins er talinn með) hvað ræki þá til slíks. Var þar einkum teflt fram þeim rökum að tekjutenging á greiðslum ellilífeyris frá TR væri brot á eignarrétti. Þannig er þetta þó með flest bótakerfi ríkisins. Þeir sem hafa tekjur eða eiga eignir missa jafnt og þétt rétt til barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta.

Eignarréttur í ríkissjóði

Eignarréttur er vissulega svo mikilvægur þáttur í mannréttindum að naumast væri hægt að verja önnur mikilvæg mannréttindi án hans. En fjármunir í ríkissjóði ár hvert eru teknir af skattgreiðendum í landinu. Ef einhver ætti eignarréttarlegt tilkall til þessara fjármuna væru það helst þessir sömu skattgreiðendur. Tilteknir hópar eiga enga eignarréttarlega kröfu til þessara fjármuna í árlegum sjóði ríkisins.

Barnafólk á ekki eignarréttarlegt tilkall til barnabóta. Alþingi getur breytt reglum um barnabætur þegar því sýnist eða afnumið þær alfarið án þess að skerða eignarrétt barnafólks. Það hefur ekki verið safnað í sérstaka sjóði til að greiða þær bætur. Það er enginn barnabótasjóður til hjá ríkinu. Enginn ellilífeyrissjóður heldur. Það eru ekki einu sinni „markaðir tekjustofnar“ til greiðslu þessara bóta. Ef þingið afnemur alla skatta frá og með næsta mánudegi verður ríkissjóður tómur á þriðjudegi. Hvert ætlar Grái herinn þá að beina hinum rangnefndu eignarréttarlegu kröfum sínum? Heim til fólks á aldrinum 0 – 66 ára?

Nú þykir sjálfsagt ýmsum að ríkið eigi að hækka ellilífeyri eða hætta að taka tillit til annarra tekna þegar ellilífeyrir er ákvarðaður. En það mál er útkljáð á Alþingi. Að hætta öllum skerðingum ellilífeyris frá TR vegna annarra tekna lífeyrisþega myndi kosta ríkissjóð að lágmarki 40 milljarða á ári. Ríkissjóður hefur verið rekinn með svimandi halla og stóraukið skuldir sínar undafarin misseri til að fjarmagna gagnslausar aðgerðir í nafni sóttvarna. Þessir fjármunir liggja því ekki á lausu.

Málsókn gegn lýðræðinu?

Í máli fulltrúa Gráa hersins í Kastljósi fyrir tveimur árum kom hins vegar fram að Alþingi hafi ekki lokaorðið í málum sem þessum heldur fari dómstólar í raun með fjárveitingarvaldið og þá væntanlega einnig skattlagningarvaldið til að afla fjárins. Í fyrstu mátti ætla að þar væri Grái herinn að tala um Hæstarétt, æðsta dómstól landsins. En svo kom í ljós að Grái herinn ætlar að fara með þetta mál sitt „allan ferilinn“ og á þar við alla leið til stofnunar á vegum Evrópuráðsins í Strassborg sem kallar sig Mannréttindadómstól Evrópu. Þar eiga nokkrir sendifulltrúar 47 þjóða að útkljá ríkisfjármálin á Íslandi.

Hvað myndi það þýða að útgjöld ríkissjóðs væru ákveðin af þessari stofnun Evrópuráðsins? Tja, kosningar til Alþingis snúast að verulegu leyti um tekjur og gjöld ríkissjóðs. Því verður vart trúað að Grái herinn vilji afnema lýðræði á Íslandi og fela völdin bjúrókrötum sem starfa í algeru ábyrgðarleysi og skattfrelsi alþjóðastofnunar úti í heimi.

Það er öldungis fráleit hugmynd að skattfrjálsir skriffinnar í útlöndum geti tekið fjárveitingavaldið og þar með skattlagningarvaldið af æðstu stofnun þjóðarinnar. Menn sem sjálfir eru undanþegnir greiðslum í sameiginlega sjóði!

Hér skal samt ekki útilokað að þeir reyni það. Þeir hafa reynt að bregða fæti fyrir lýðræðislega skipun dómara hér á landi og þessi dægrin er leitað atbeina Strassborgar um að afnema lýðræðislegar kosningar til Alþingis Íslendinga.

Hefur ekkert upp á sig að safna í lífeyrissjóð?

Vegna skerðinganna á ellilífeyri frá TR heyrist stundum að það borgi sig ekki að greiða í lífeyrissjóð. Þetta er rangt. Einstæðingur sem á engin réttindi í lífeyrirsjóði fær nú 359 þúsund krónur í ellilífeyri frá TR og þar með ráðstöfunartekjur upp á 300 þúsund á mánuði.

Sá sem á réttindi upp á 300 þúsund á mánuði í lífeyrissjóði fær samtals 524 þúsund frá TR og lífeyrissjóði og er með ráðstöfunartekjur upp á 403 þúsund.

Sá sem á réttindi í lífeyrissjóði er alltaf betur settur fjárhagslega en sá sem á engin slík réttindi og verður að treysta eingöngu á ellilífeyrinn frá TR.

Og burtséð frá mánaðarlegri uppskeru er það ekki einhvers virði að hafa eigin tekjur úr lífeyrissjóði fremur en vera alfarið upp á ríkið kominn?

Grái pelsinn?

Rétt er að vekja að lokum athygli á því að málaferli Gráa hersins snúast ekki um hagsmuni þeirra eldri borgara sem bera minnst úr býtum og eru á berum bótum frá TR. Málareksturinn sýnist um hagsmuni hinna sem eiga réttindi í lífeyrissjóði eða hafa atvinnutekjur. Þeir vilja fá bætur frá TR eins og þeir hafi engar aðrar tekjur.

Fjármunir í ríkissjóði eru ekki ótakmarkaðir heldur eru þeir þvert á móti takmarkaðir til hvers málaflokks. Ef dómstólar reyna að taka sér fjárveitingarvald og fallast á kröfur Gráa hersins munu tugir milljarða króna flytjast frá þeim eldri borgurum sem minnst hafa til þeirra sem mest hafa.