Nú er komið á daginn að umframdauðsföll í faraldrinum eru svipuð á Íslandi og Svíþjóð. Í kjölfarið hljóta menn að spyrja hvað kostuðu þær leiðir sem þessi tvö ríki fóru í faraldrinum.
Þessi spurning er mikið feimnismál á Alþingi þar sem allir flokkar voru meðvirkir í því að henda barninu út með baðvatninu í viðureigninni við pestina. Í því óðagoti fólst meðal annars algert skeytingarleysi um fjármál og þar með skuldasöfnun hins opinbera.
Í stuttu máli safnaði hið opinbera á Íslandi sexfalt hærri skuldum en hið sænska í faraldrinum. Við skuldir Svía bættust 1,8% af vergri landsframleiðslu en 10,9% prósentustig við sameiginlegar skuldir Íslendinga. Danir bættu við 3,1% og Finnar 6,2%.
Tölurnar fyrir Ísland eru af vef Hagstofu Íslands og fyrir Svíþjóð og önnur Evrópuríki af vef Office for National Statistics.
Á myndinni má sjá skuldasöfnunina fyrir Ísland, meðaltal ESB-27 og þær fimm ESB þjóðir sem söfnuðu mestum og minnstum skuldum. Ísland safnaði nokkuð meiri skuldum fyrstu tvö ár faraldursins en ESB þjóðir að meðaltali.
Svíþjóð er með lágan umframdauða í samanburði við flest ríki Evrópu og safnaði minni skuldum en öll nema eitt.
Svíar beittu vægustu aðgerðum Evrópuríkja gegn veirunni.