Föstudagur 16. maí 2014

Vefþjóðviljinn 136. tbl. 18. árg.

Frambjóðendur sem segjast vilja lækka skatta geta treyst því að ef fréttamenn ræða við þá, munu þeir strax spyrja hvaðan eigi að „taka peningana til að fjármagna þetta“. Vinstrimönnum finnst alltaf að skattalækkanir séu opinber útgjöld – og það eru eiginlega einu opinberu „útgjöldin“ sem þeir eru alltaf á móti.

Í vikunni kynnti Samfylkingin í Reykjavík stefnu sína í borgarmálum, enda eru kosningar eftir rúmar tvær vikur. Ríkisútvarpið sendi fréttamann á staðinn. „Bættur hagur barnafólks og fleiri íbúðir eru meðal helstu atriða“, sagði í kynningu fréttalesarans.

Fréttin sjálf hófst svo á orðunum: „Kosningaskrifstofa Samfylkingarinnar sem opnuð var í dag er ekki í miðborginni eða að minnsta kosti ekki í hjarta hennar, heldur rétt fyrir ofan Hlemm, í póstnúmeri 105, á mótum Brautarholts og Stórholts. Þar í kring er einmitt verið að reisa mörg ný íbúðarhús en Samfylkingin leggur meðal annars áherslu á húsnæði á viðráðanlegu verði, borg sem gott er að eldast í og lífsgæði í grænni borg.“

Svo byrjaði Dagur B. Eggertsson að tala. Það þarf að byggja „2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir á næstu árum“, svo þarf að „hækka frístundakortið“ og „auka systkinaafslætti“ og niðurstaðan af þessu var að Samfylkingin vildi leggja „áherslu á Reykjavík fyrir alla“.

Ekki þótti ástæða til að spyrja Dag hvernig hann vildi fjármagna þessi stefnumál Samfylkingarinnar. Yrðu af þessu þó raunveruleg útgjöld.

Hvers vegna ætli baráttumenn fyrir skattalækkunum séu alltaf spurðir hvar þeir ætli að „taka peningana“ fyrir skattalækkunum, en þulur um aukin útgjöld séu yfirleitt sjálfsagður hlutur?

En það kom þó fram að Samfylkingin er enginn miðbæjarflokkur. Kosningaskrifstofan er „í póstnúmeri 105“.