Föstudagur 27.desember 2013

Vefþjóðviljinn 361. tbl. 17. árg.

Þær skattalækkanir sem alþingi samþykkti á dögunum og taka gildi um áramót eru ekki miklar. Skatthlutfall á einu þrepa í núverandi tekjuskattskerfi lækkar um hvorki meira né minna en hálft prósent. Við það bætist svolítil hliðrun á þrepamörkum.

En þótt þessar skattalækkanir séu sáralitlar í samanburði við það sem þarf að gera, þá eru þær þó í rétta átt. Það er strax breyting að ekki séu stigin stór skref í ranga átt en þess í stað hænuskref í rétta átt. En stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því sem fyrst, að mun stærri skref þarf að stíga, og þau næstu strax á væntanlegu ári.

Eitt af því sem vinstrimenn segja til að geta verið neikvæðir vegna þessarar örlitlu skattalækkunar, er að hún komi þeim mest til góða sem hærri hafi tekjurnar.

Það er auðvitað rétt að skattar þeirra, sem hafa hærri tekjur munu lækka um aðeins fleiri krónur en hinna sem lægri tekjur hafa. En allar skattalækkanir sem eitthvað sæmilega munar um, og líka þær sem lítið munar um, verða þannig. Skattkerfi á Íslandi er þannig að þeir sem hafa hærri tekjur greiða mun fleiri krónur í ríkissjóð en hinir sem lægri tekjur hafa. Sú yrði raunar alltaf niðurstaðan ef tekjuskattur miðast við hlutfall af greiddum launum, en hér eru áhrifin enn aukin með því að hærra hlutfall er svo tekið af hærri launum. Ofan á þetta bætist síðan neikvæð tekjutenging ýmissa bóta, svo sem vaxtabóta og barnabóta.

Þeir sem eru á móti tekjuskattslækkun vegna þess að þeir tekjulægstu fái í krónum talið minna úr henni en aðrir, þeir verða líklega alltaf á móti tekjuskattslækkun. Tekjuskattur til ríkisins, frá þeim sem lægstar hafa tekjurnar, er svo sáralítill í hlutfalli við tekjuskatt frá öðrum skattgreiðendum, að raunveruleg tekjuskattslækkun verður aldrei miðuð við hann. Tekjuskattur er af svo yfirgnæfandi hluta greiddur af þeim sem hærri tekjur hafa, að raunveruleg tekjuskattslækkun mun alltaf nýtast þeim betur.

En tekjuskattslækkun nýtist ekki aðeins þeim sem munu greiða örlítið færri krónur í ríkissjóð. Þeir munu nefnilega nota krónurnar í eitthvað annað en skattgreiðslur. Það mun skapa viðskipti úti um allt, fyrirtæki munu ganga betur, fleiri starfsmenn verða ráðnir eða færri sagt upp, og svo framvegis. Skattalækkun nýtist miklu fleiri en þeim sem greiða skattinn sem er lækkaður.