Fimmtudagur 26. desember 2013

Vefþjóðviljinn 360. tbl. 17. árg.

Ríkisvaldið hefur ruðst fram á völlinn í umhverfismálum undanfarna áratugi. Risavaxnar ríkisstofnanir hafa sprottið upp í kringum málaflokkinn. Enginn veit hve oft ríkið hefur tekið fram fyrir hendurnar á einstaklingum sem ella hefðu beitt sér í umhverfismálum og hve mörgum nýjum leiðum hefur þannig verið lokað.

Úlfurinn (gray wolf) var horfinn úr vesturríkjum Bandaríkjanna og kominn á lista yfir dýr í útrýmingarhættu þegar maður að nafni Hank Fischer hafði frumkvæði að því að festa hann aftur í sessi í Yellowstone þjóðgarðinum.
Sem von er voru bændur í nágrenni þjóðgarðsins ekki hrifnir af því að úlfarnir settust aftur að á svæðinu. Úlfarnir drepa náttúrulega búsmala þótt þeir geri einnig gagn með því að halda elg og öðrum stofnum í skefjum.

Fischer kom því á fót sjóði sem bætir bændum gripi sem úlfarnir drepa og greiðir þeim þóknun ef úlfarnir gera sér greni á landi þeirra.

Frá þessu segir Laura Huggins hjá PERC í Montana skilmerkilega í nýju myndbandi.