Laugardagur 28. desember 2013

Vefþjóðviljinn 362. tbl. 17. árg.

Lýðræðisfrumkvöðlarnir í Samfylkingunni hafa nú tilkynnt að niðurstöður almennra kosninga séu lágpunktur ársins.
Lýðræðisfrumkvöðlarnir í Samfylkingunni hafa nú tilkynnt að niðurstöður almennra kosninga séu lágpunktur ársins.

Samfylkingin hefur frá stofnun sinni fyrir fjórtán árum jafnan látið eins og hún sé á þröskuldi þess að kynna nýstárlega uppgötvun sína fyrir almenningi. Lýðræðið.

Stundum hefur hún skeytt þokkafullum orðum fyrir framan stórmerkin. Þátttökulýðræði. Íbúalýðræði.

Eins og verða vill um helstu nýjungar eru oft byrjunarörðugleikar, jafnvel hjá helstu sérfræðingum.

Þannig hefur Samfylkingin átt erfitt með að höndla lýðræðið í sjálfu frumkvöðlasetrinu. Niðurstaða prófkjörs Samfylkingarinnar stendur ekki trekk í trekk og forsætisráðherraefni eru valin í bakherbergjum. Atkvæðisréttur er tekinn af stórum hluta flokksmanna. Svo langt gekk þátttökulýðræðið í varaformannskjöri að greidd atkvæði voru fleiri en þeir sem mættu á kjörstað til að greiða þau.

En hvernig Samfylkingin hagar málunum í sínum ranni er kannski aukaatriði. Það varðar almenning meiru að flokkurinn hefur hvað eftir annað reynt að koma í veg fyrir að almennir íbúar í landinu fái að taka þátt í ákvörðunum um mikilsverð mál á borð við Icesave ánauðina.

Og nú hefur formaður þingflokks Samfylkingarinnar upplýst hver var lágpunktur ársins.

Lágpunktur ársins var kosninganótt.

Þar hafa menn það. Það verður ekki lægra komist en þegar niðurstöður lýðræðislegra kosninga liggja fyrir..