Helgarsprokið 29. desember 2013

Vefþjóðviljinn 363. tbl. 17. árg.

Grimmd
Grimmd

Meðal nýútkominna bóka er ný skáldsaga Stefáns Mána, Grimmd, sem eins og margar aðrar bækur Stefáns gerist í undirheimunum og segir frá mönnum sem ekki láta sér allt fyrir brjósti brenna. Er ekki fyrir viðkvæma að fylgjast með öllu því sem fram fer, en þeir sem hafa haft gaman að fyrri bókum höfundarinar verða ekki sviknir af þessari.

Þótt sitthvað í Grimmd sé þess eðlis að menn lesa það ekki upphátt á kvöldvöku, þá er þar margt annað að finna. Þar á meðal frásögn af því, er ein helsta persóna úrbókum Stefáns, lögreglumaðurinn Hörður Grímsson, fer inn í verslun er selur lífrænan varning og afgreiðslufólkið „hefur yfir sér hrokafullan blæ þess alvitra“ en viðskiptavinirnir eru „horaðir , fölir og hálfveiklulegir, eins og þeir þurfi fremur á blóðgjöf að halda en meira af spelti og soja-afurðum.“ Hörður kaupir einhverjar vörur og biður svo um plastpoka, en fær þau svör að þeir séu ekki í boði heldur aðeins bréfpokar. Vandamál fólks af hans kynslóð sé að því þykir ekki nægilega vænt um umhverfið til að vilja vernda það fyrir komandi kynslóðir. Hörður tekur því heldur illa og heldur fræðslufyrirlestur í búðinni:

„Ó, er það svo?“ segir Hörður og byrjar að raða vörunum í stífan pokann. „Ég skal segja þér eitt og annað um mína kynslóð, unga kona!“ Þegar ég var krakki þá var allt gos í glerflöskum, svo fórum við með tómu glerin í búðina og keyptum bara innihaldið en glerin fóru aftur í átöppunaverksmiðjuna þar sem þau voru þvegin og síðan notuð aftur og aftur. Í dag er allt gos í plasti og plastið fer í ruslið eða endurvinnsluna þar sem því er eytt eða það endurunnið með tilheyrandi kostnaði, fyrirhöfn og mengun. En við vorum auðvitað ekki nógu græn!“ …
„Þegar ég var krakki voru stigar í húsum og verslunum, ekki lyftur og rúllustigar. Og við löbbuðum út í búð og heim til vina okkar en skriðum ekki eins og pöddur upp í þrjú hundruð hestafla sportbíla til að komast hundra metra milli staða. Við nenntum að hreyfa okkur, við sólunduðum hvorki rafmagni né bensíni – en við vorum auðvitað ekki nógu græn!“ …
„Þegar ég var krakki, þá þvðo mamma mín af mér bleiurnar og notaði þær aftur og aftur, og hún þurrkaði þær á snúru, úti í sólinni, en ekki í þurrkara, sjáðu til.“ Hörður hallar sér yfir afgreiðsluborðið og hálfvegis yfir stúlkuna. „Þá þurftu líka yngri systkini að nota fötin sem þau eldri voru vaxin upp úr, leikföng voru úr járni og tré og notuð af kynslóð eftir kynslóð. En við vorum auðvitað ekki nógu græn!“ …
„Þegar við slógum grasið, þá slógum við það með handsláttuvél, með okkar eigin afli, en þurftum hvorki að eyða rafmagni né brenna eldsneyti! Þegar við vorum þyrst, þá drukkum við vatn úr krananum í stað þess að kaupa það í plastumbúðum. Það var hægt að kaupa blek í penna, rakvélar voru ekki einnota heldur skiptum við um blað í þeim í stað þess að fleygja allri vélinni. Við gátum haft samskipti án þess að nota tölvur og fundið pitsustað í stórborg án þess að notast við snjallsíma, smáforrit og gervitungl – en vorum auðvitað ekki nógu græn, er það?“