Föstudagur 23. apríl 2010

113. tbl. 14. árg.

T alsverður hópur manna hefur að undanförnu verið kynntur sem mennirnir „sem sáu allt fyrir“. Er þar átt við hrun bankanna og íslensku krónunnar haustið 2008.

Meðal helstu spámanna er formaður félags fjárfesta. Hann sá þetta svo glöggt fyrir að hann tapaði, að eigin sögn, stórfé sem hluthafi í bönkunum. Árið 2007 ráðlagði formaður fjárfesta almenningi jafnframt að taka lán til húsbygginga í erlendri mynt. Sjálfur sagðist hann ætla að „veðja á svissneska frankann“ í þeim tilgangi. Hann sá allt fyrir en gerði allt þveröfugt við það sem hefði reynst best í hruninu. Vissulega óvenjuleg hegðun fjárfestis en auðvitað kunna ekki allir við að græða á eigin framsýni.

Annar er prófessor við Háskóla Íslands sem frá og með myndun fyrstu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafði uppi miklar bölbænir um íslenskan efnahag. Úrvali úr bölmóðinum safnaði hann á bókina Síðustu forvöð árið 1995. Sama ár skrifaði hann greinina „Hagvaxtarundrið í Asíu“ í tímaritið Vísbendingu. Skömmu síðar skall þar á ein frægasta kreppa sögunnar. Eftir kreppu á Íslandi þurfti hann hins vegar að bíða í nær 20 ár. Þeir sem spáð hafa Kötlugosi jafnt og þétt frá 1919 munu vafalaust hljóta sína viðurkenningu á endanum.

Staðreyndin er auðvitað að sárafáir gátu sér rétt til um þá atburði sem áttu sér stað haustið 2008. Nú síðast er upplýst um mikið tap íslenskra lífeyrissjóða vegna þeirra. Þessir lífeyrissjóðir eru auðvitað með sérfræðinga og fagmenn í vinnu við fjárfestingar. Alveg eins og allir erlendu bankarnir sem töpuðu óskiljanlegum fjárhæðum á hruninu hér. Að ekki sé minnst á alla hina íslensku fagfjárfestana með formanninn sinn í fararbroddi.

Svo er það sagt í fúlustu alvöru að koma hefði mátt í veg fyrir þetta allt saman ef fjármálaeftirlitið hefði haft 15 starfsmenn í viðbót eða þjóðhagsstofnun verið áfram að störfum. Þar hefði einmitt mátt finna þá skriffinna sem hefðu komið í veg fyrir allt tjónið.