Laugardagur 24. apríl 2010

114. tbl. 14. árg.

B ara ef meira hefði nú verið hlustað á háskólamennina, þá hefði margt farið betur. Að vísu tókst samanlögðu „háskólasamfélaginu“ ekki að stynja upp úr sér skýrum og einbeittum ráðum og viðvörunum í tæka tíð, áður en bankar komust í þrot og ótrúlegasta fólk var búið að skuldsetja sig í framandi mynt til að kaupa sportjeppa og fylla skottið af honum af hlutabréfum. Að minnsta kosti hefur ekki enn fundist háskólamaður sem sá fjármálakrísuna fyrir og hegðaði sér í samræmi við það, þó sumir reyni nú að fínkemba ritverk sín í von um að finna einhvers staðar setningu sem hægt sé með hörkunni að túlka eins og varúðarábendingu eftir á að hyggja. Og ástæðulaust er að gleyma því að viðskiptabankarnir voru fleytifullir af sprenglærðum sérfræðingum, og var svo komið að önnur fyrirtæki og stofnanir kvörtuðu sáran yfir því að allt lærðasta og klárasta fólkið væri farið í bankana. Erlendis sátu síðan hagfræðingar og véluðu um málin í stærstu seðlabönkum og viðskiptabönkum heims þar til allt féll niður um þá eins og buxur um beltislausan mann.

En háskólarnir eru bara samt svarið og þar eru kapparnir sem geta leyst vandamálin, ef menn bara hefðu vit á að tala oftar við þá. Þess vegna gera fréttamenn það sýknt og heilagt. Einn háskólamaður er Grétar Þór Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, en Ríkisútvarpið ræddi við hann í Vinstrispeglinum í gær. Umræðuefnið var styrkir fyrirtækja til stjórnmálamanna, en fréttamenn ganga út frá því sem vísu að fólk í stjórnmálum sé almennt til sölu fyrir svolítinn styrk. Taldi prófessorinn prófkjör flokkanna valda fjárþörf einstakra stjórnmálamanna og yrði úr „mjög óheppilegur kokteill“. Væri því „mjög brýnt“ að finna „einhverjar aðferðir aðrar til þess að velja okkur stjórnmálamenn“.

En Grétar Þór er auðvitað úr háskólasamfélaginu og því hefur hann líka svör við vandamálunum. Það er til lausn á því mikla vandamáli að frambjóðendur þurfi að ná fylgi meðal þúsunda flokksbundinna í prófkjöri: „Já auðvitað höfum við, við þekkjum alla umræðuna um persónukjörið. Ég geri ráð fyrir því að ef við færum, ef við tækjum stærri skref inn í persónukjör þá myndi þessi þörf fyrir fjármuni minnka verulega hjá einstaka einstaklingum.“

Þetta er auðvitað hárrétt hjá stjórnmálafræðiprófessornum. Ef frambjóðendur þyrftu, hver og einn, að kynna sig í persónukjöri meðal allra kjósenda, þá þyrftu þeir auðvitað mun minni kynningu, auglýsingar og útgjöld en þegar þeir glíma í innanflokksprófkjöri.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag fer ritstjórinn mikinn gegn þeim lánlausa lýð sem stundar það nú um stundir að áreita stjórnmálamenn á heimilum þeirra að kveldlagi.

Þessi skrif ritstjórans eru þörf, en samt sem áður vekur tímasetningin óneitanlega athygli. Það fer ekki fram hjá neinum sem vita vill að Fréttablaðið hefur stigið fram til varnar þingmanni Samfylkingarinnar í varnarbaráttu hennar vegna styrkja sem hún hefur þegið frá fyrirtækjum. Fróðlegt er að bera þau varnarskrif saman við hvernig blaðið brást við vikunni fyrr, þegar að því er virðist sami lýðurinn áreitti annan stjórnmálamann með nákvæmlega sama hætti, að kveldlagi á heimili hans. Þá fór lítið fyrir fordæmingunni og þess í stað ýtt undir að fleiri mættu, með því að halda fram að „mótmælendur væru að safnast saman“ fyrir utan heimili viðkomandi.

En til þess að glámskyggnum áhangendum gæluflokks blaðsins dyljist nú örugglega ekki hverra erinda ritstjórinn er í raun að ganga í pistli sínum klykkir hann út með því að rifja upp önnur mótmæli við heimili stjórnmálamanns sem áttu sér stað fyrir hartnær áttatíu árum síðan. Ritstjórinn segir múg manna þá hafa staðið fyrir daglegum æsingum og ólátum við heimili viðkomandi stjórnmálamanns. Og hvað finnst ritstjóranum nú markverðast við þá uppákomu? Jú, að samkvæmt samtímaheimildum hafi þar verið um að ræða „einkum kjósendur Sjálfstæðisflokksins“.