Helgarsprokið 25. apríl 2010

115. tbl. 14. árg.

R íkisútvarpið rauf loksins þöggun Jóns Ólafssonar, heimspekiprófessors á Bifröst , um helgina og sagði í gær í öllum sínum miðlum frá óvæntum skoðunum hans á lýðræði, viðskiptalífinu og stjórnmálum. Voru þá liðnar margar klukkustundir frá því áheyrendur heyrðu síðast í Jóni, hvort sem var í Spegli, Silfri, Víðsjá eða hvað þeir heita allir þættirnir þar sem yfirvegaðir hugsuðir útskýra heiminn fyrir þröngsýnum smáborgurum sem varla eiga svona góða þætti skilið.

„Það er engin sérstök þörf á nýrri stjórnarskrá og engin þörf á „nýju lýðveldi“. Hins vegar gæti komið vel til álita að endurnýja svolítið í einlitum hópi fréttamanna, álitsgjafa og þáttastjórnenda, sem fyrir löngu virðast komnir í öngstræti með meinlokur sínar.“

Eitt af því sem sem margir treysta sér til að fullyrða með spekingssvip, er að setja þurfi nýja stjórnarskrá. Fá „nýtt lýðveldi“, eins og sumum þykir ákaflega fínt að biðja um. Mætti jafnvel halda að slíkir menn trúi því að stjórnarskráin hafi átt þátt í því að bankarnir þrír komust í þrot. Enginn þeirra sem vill nýja stjórnarskrá hefur þó bent á hvernig stjórnarskráin hafi valdið bankaþroti og ekki hvernig sú grein ætti að hljóma í nýju skránni sem myndi koma í veg fyrir efnahagskreppu síðar. Sumir þeirra segja hins vegar að stjórnmálaflokkarnir séu ómögulegir og því þurfi að velja þingmenn með öðrum hætti. Að vísu notast allar lýðræðisþjóðir við stjórnmálaflokka, en þeir sem hér eru á móti stjórnmálaflokkum gera ekkert með það, og eru þeir þó yfirleitt í hinu orðinu óskaplega alþjóðasinnaðir og sigldir.

Sumir segjast vilja „persónukjör“, þannig að kjósendur greiði mönnum en ekki flokkum atkvæði sín. Svo merkilega vill til, að þeir sem þetta segjast vilja eru gjarnan innan vinstriflokkanna þar sem tíðkast að breyta niðurstöðum prófkjörs og forvals svo henti fyrirfram ákveðnum formúlum flokksforystunnar. Kjósendur skila niðurstöðu í prófkjöri en þá kemur flokksforystan eftir á með kvótana sína og breytir röðinni. Þegar það er búið mætir sama forysta niður á alþingi eða í sjónvarpsviðtöl og vill endilega taka upp persónukjör og aukin áhrif kjósenda.

Persónukjör væri fyrst og fremst ávísun á aukna tækifærismennsku og sýndarmennsku. Frambjóðendur á sama lista tækju að berjast hver við annan með yfirboðum og kynningu. Upp myndu spretta „stuðningsmenn Jóns Jónssonar“ og færu að auglýsa sérstaklega Jón Jónsson, frambjóðanda í fimmta sæti í suðvesturkjördæmi. Þessir stuðningsmenn, sem væru reknir á kennitölu einhvers gamals baráttujálks, væru auðvitað ekki stjórnmálaflokkur heldur eingöngu almennir borgarar að láta í ljós lýðræðislegan vilja sinn, og hinar oflofuðu reglur um fjármál stjórnmálaflokka ættu ekki við um þá. Ofan á sýndarmennskuna og vinsældakapphlaup hundraða frambjóðenda myndi þannig bætast stórfelld sókn þeirra í styrki og kynningu, hvar sem slíkt mætti hafa. Og að sjálfsögðu eru háværustu talsmenn persónukjörs líka með fjárstyrki til stjórnmálamanna á heilanum.

Sumir eru mjög á móti stjórnmálaflokkum eða virðast líta niður á það fólk sem þar starfar. Röksemdirnar sem færðar eru fram fyrir þeim sleggjudómum eru sjaldan merkilegar. Vissulega komust þrír bankar í þrot fyrir tveimur árum og því hefur fylgt efnahagslegt bakslag. Ef menn vilja láta eins og efnahagsbakslagið 2008 hafi verið stjórnmálaflokkum, stjórnarskránni og stjórnskipaninni að kenna, hvað vilja menn þá segja um allar þær framfarir sem urðu á fyrri árum? Og er þá ekki verið að spyrja þá sem lifa í þeirri trú að það hafi allt verið innistæðulaust, sem auðvitað er fjarstæða. Ótrúlegar breytingar til betri vegar á ótal sviðum íslensks þjóðfélags, eru þær kannski engin vísbending um ágæti stjórnskipunarinnar, svona fyrst þrot þriggja banka á að vera óskapleg krafa um „nýtt lýðveldi“.

Það er engin sérstök þörf á nýrri stjórnarskrá og engin þörf á „nýju lýðveldi“. Hins vegar gæti komið vel til álita að endurnýja svolítið í einlitum hópi fréttamanna, álitsgjafa og þáttastjórnenda, sem fyrir löngu virðast komnir í öngstræti með meinlokur sínar.