Mánudagur 26. apríl 2010

116. tbl. 14. árg.

J æja, þá er kominn verðmiði á hefðbundinn framsóknarmann án rafhlöðu. Miðstjórn Framsóknarflokksins vill ekki vera eftirbátur annarra í sýndarmennsku og taugaveiklun og setti flokksmönnum því siðareglur um helgina. Kjörnir fulltrúar mega ekki taka við gjöfum sem eru verðmætari en tuttugu þúsund krónur. Því annars væru þeir líklega komnir í vasann á gefandanum.

Það er auðvitað viss léttir að vita hvað framsóknarmaður kostar. En að öðru leyti var leiðinlegt að frétta af siðareglum framsóknarmanna. „Skráðar siðareglur“ eru enn ein sýndarheimslausn þeirra, sem halda að vandamál heimsins liggi í skorti á reglum. Aðeins þurfi að skrifa niður reglur og „verkferla“ og þá sé allt klappað og klárt. Það sem fari í bága við skráða siðareglu, það sé ekki í lagi. Og öfugt. Eftir að siðareglur hafa verið skráðar þarf enginn að hafa neitt siðferði. Hann flettir bara upp í reglunum.

Ef menn tækju nú miðstjórn Framsóknarflokksins á orðinu, og létu eins og bæði þeir og hún trúi því að í raun sé ástæða til að setja slíka „siðareglu“ og gert var, þá væri nú hægt að spyrja hvers vegna siðareglan sé ekki hugsuð frekar. Ætti ekki líka að miða hana við efnahag bæði gefanda og þiggjanda? Fyrir örsnauðan mann er tuttugu þúsund króna gjöf mikils virði, hvort sem er gefanda eða þiggjanda. Fyrir efnamann skiptir hún engu og myndi engu breyta þótt miklu hærri væri. Ef að „siðareglan“ væri í raun sett af einhverri þörf, annarri en þeirri að geta litið út eins og sá sem er að „taka á sínum málum“, þá væri hún miklu ýtarlegri og víðtækari. Sennilega yrði hún sett fram í excel-skjali – sem ætti í raun að höfða til liðsins sem vill endilega fá „skráðar siðareglur“ um alla hluti.

Eitt af því sem fréttamenn hafa óskaplegan áhuga á, eru laxveiðiferðir. Sumir þeirra virðast halda að menn séu endanlega á önglinum hjá þeim sem býður þeim í lax. Eitt sinn komst upp að formaður Framsóknarflokksins hafði þegið boð í slíka ferð. Fréttamaður óð að flokksformanninum og spurði hvort þetta væri ekki algert siðleysi, að hann væri orðinn háður þeim sem boðið hefðu í ferðina. „Myndir þú láta slíkt boð hafa áhrif á þig?“ spurði hann hins vegar ofurrólegur á móti, og minnir á að sumt mega nútíma-framsóknarmenn læra af Steingrími Hermannssyni.

Þeir sem telja sjálfa sig og aðra þurfa nauðsynlega á skráðum siðareglum að halda, það eru kannski ekki þeir leiðtogar sem landsmenn þurfa helst á að halda.