Þriðjudagur 27. apríl 2010

117. tbl. 14. árg.

K ristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður hélt því fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að formenn stjórnmálaflokkanna hefðu ekki kært sig um umræður á Alþingi um frumvarp um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í byrjun desember 2006. Þetta hljómar ekki fjarstæðukennt þegar haft er í huga að frumvarpið var lagt fram 5. desember af formönnum flokkanna, fyrsta umæða fór fram 8. desember og frumvarpið var samþykkt án mótatkvæða 9. desember en þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Aðeins rúmum tveimur vikum fyrr eða 22. nóvember hafði nefnd allra flokkanna skilað af sér tillögum að þessu frumvarpi til forsætisráðherra. Engra umsagna við frumvarpið var leitað.

Á vef sínum segir Kristinn svo

Þingmönnum var uppálagt að þegja og taka ekki til máls í þingsalnum. Þögn og skyndiafgreiðsla voru fyrirmælin frá flokksformönnunum Geir Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Jóni Sigurðssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Guðjóni A. Kristjánssyni til þingmannanna. Það þótti ekki gott fyrir flokkana að umræður færu fram á Alþingi.

Kristinn nefnir hins vegar ekki hvers vegna formennirnir voru svo feimnir við umræðu um frumvarpið. Ekki var andstöðunni fyrir að fara í þingsalnum og hinar talandi stéttir höfðu kallað eftir lögum af þessu tagi um árabil. Fólkið sem trúði á faglegar reglur, eftirlit og ríkisstyrki fékk öllu sínu framgengt á þessum árum. En ástæðan liggur í augum uppi. Ástæða fyrir hræðslunni við umræðuna var að með lagasetningunni var skattfé mokað í flokkana. Í desember 2006 voru stjórnmálaflokkarnir gerðir að ríkisstofnunum án þess að um það væri rætt í landinu. Á þessu mátti ekki vekja óþarfa athygli með ræðuhöldum í þingsalnum.

Og hvernig hafa svo lögin reynst?

Það mætti kannski byrja á því að spyrja á móti hvernig flokkarnir hafi reynst síðan þeir urðu að ríkisstofnunum. Undanfarið hafa þeir gert lítið annað en að biðjast afsökunar á sjálfum sér. Um fátt annað hefur svo verið meira rætt að undanförnu en fjármál ýmissa frambjóðenda. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði til að mynda af sér á dögunum vegna fjármála sinna, að því er virtist. Eiginmaður hennar hafði fengið á þúsund milljónir lánaðar til hlutabréfakaupa og skuldirnar og bréfin svo færð í sérstakt félag þegar harðnaði á dalnum. Þetta var reyndar allt löglegt og fínt samkvæmt lögunum um fjármál frambjóðenda. En lögin banna hins vegar að frambjóðendur taki við 301 þúsund krónum í styrk í prófkjöri. Frambjóðandi má skulda manni þúsund milljónir en ekki þiggja af honum 301.000.

Og grínið heldur áfram.

Þingmenn eiga að skrá hagsmuni sína á vef Alþingis. Allt uppi á borðum. Þar gefur nú á að líta því Eygló Harðardóttir fór á ráðstefnuna Women, peace and security í boði NATÓ og sauðfjárbóndinn Ásmundur Einar Daðason er varaformaður slíkra í sinni sveit. Árni Þór Sigurðsson kemur einnig út úr skápnum með fangið fullt af beinagrindum. Hann situr í 100 ára afmælisnefnd Höfða.

Í hagsmunaskráningu þingmanna er ekkert um hverjum þeir skulda eða hve mikið þeir skulda. Og enginn þeirra tekur það upp hjá sjálfum sér að birta slíkar upplýsingar. Allra síst þeir sem gagga hæst um gagnsæi. En það er svo sem ekki eins og þingið sé að fjalla um skuldir heimilanna eða aðra slíka hagsmuni um þessar mundir.