Miðvikudagur 28. apríl 2010

118. tbl. 14. árg.
Hæstvirtur forseti. Ég fagna því að frumvarp er komið fram þar sem meginmarkmiðið er að lánshlutfall verði hækkað í 90%. Sú samkeppni sem nú er komin upp á markaðnum um fasteignaviðskipti er jákvæð og hefur stuðlað að vaxtalækkun og mikilvægt að Íbúðalánasjóður hafi fulla burði til að taka þátt í þeirri samkeppni.
– Jóhanna Sigurðardóttir fagnar frumvarpi um hækkun hámarkslána Íbúðarlánasjóðs í ræðu á Alþingi í nóvember 2004.

F

„Ég held að staðan sé raunverulega sú að hæstvirtur ráðherra hafi verið píndur af Sjálfstæðisflokknum til að ganga ekki lengra varðandi þá breytingu sem hér er að ganga í gegn um hækkun á lánshlutfalli.“

ram hefur komið í fréttum að nefndarmenn í Rannsóknarnefnd Alþingis hafi uppi stóryrði um þá ákvörðun að hækka hámarkslán Íbúðarlánasjóðs. Nefndarmenn ráðist að Geir Haarde fyrir þetta, en hann hafi sem fjármálaráðherra samþykkt þessar aðgerðir þrátt fyrir að gera sér grein fyrir óæskilegum efnahagslegum áhrifum þeirra. Geir hafi einfaldlega talið að „væntanlegur skaði fyrir samfélagið væri ásættanlegur kostnaður við það að sitjandi flokkar héldu völdum.“

Þetta þykir eflaust ekki falleg lýsing – og er þá ekki átt við hið slaka málfar sem er á þessum texta skýrsluhöfunda. Eflaust þykir einhverjum Geir hafa þarna sýnt mikið ábyrgðarleysi og öllu fórnað fyrir völdin. En eins og svo víða í skýrslunni, þegar nefndarmenn byrja sjálfir að draga ályktanir, þá er hér aðeins hálf sagan sögð.

Að vísu vill Vefþjóðviljinn gera þann fyrirvara, að blaðið hefur ekki fínkembt það sem nefndarmenn segja um þetta atriði, en ef miðað er við fréttaflutning þá er gagnrýnin á Geir hér ekki sérstaklega sanngjörn. Hún virðist nefnilega byggð á því, að það hafi verið undanlátssemin í Geir og félögum hans sem hafi orðið til þess að stefna Framsóknarflokksins um aukin húsnæðislán náði fram að ganga. Sú ályktun nefndarmanna er mjög einfeldningsleg.

Þær ákvarðanir sem teknar voru í húsnæðismálum, og nefndarmenn gagnrýna, hefðu verið teknar hvort sem Sjálfstæðisflokknum líkaði betur eða verr. Aukin íbúðalán voru kosningamál Framsóknarflokksins vorið 2003, raunar það mál sem helst náði hljómgrunni meðal kjósenda og átti mikinn þátt í gengi flokksins. Framsóknarflokkurinn hefði aldrei gefið það mál eftir í ríkisstjórnarviðræðum. Og þeir, sem nú áfellast Sjálfstæðisflokkinn og Geir Haarde harðlega fyrir að samþykkja hækkun húsnæðislána, virðast hreinlega ekki átta sig á því að fleiri flokkar störfuðu á þessum tíma í landinu og voru óðfúsir að tryggja framgang þessa kosningamáls Framsóknarflokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir, talsmaður Samfylkingarinnar í húsnæðismálum, fagnaði frumvarpi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins þegar ákveðið var að hækka lán Íbúðarlánasjóðs. Þó kom fram í ræðu Jóhönnu að hún gerði sér grein fyrir því að auknir lánamöguleikar hefðu áhrif á þenslu, verðbólguþróun og einkaneyslu. En taldi engu breyta þó lánshlutfallið yrði hækkað í 90% „strax á morgun“. Aðaláhyggjur Jóhönnu voru að Íbúðarlánasjóður héldi ekki í við bankana í húsnæðislánum.

En þó að ég tali fyrir því að útlánum sé hagað með þeim hætti að við missum ekki allt úr böndunum í meiri verðbólgu og óeðlilega hækkun á fasteignaverði sé ég ekki hverju það breytir í stöðunni nú varðandi hin efnahagslegu áhrif hvort strax á morgun verði farið í 90% lánshlutfall og hámarksfjárhæðin fari t.d. strax í 15-16 milljónir þegar bankarnir vaða fram algjörlega óheft varðandi þak á hámarksfjárhæð og með 80% lánshlutfall.
Hver verður afleiðing þess að bíða svona með að hækkun á lánshlutfallinu taki gildi eða að fara lengra varðandi hámarksfjárhæðina? Það mun ekki draga neitt úr útlánaþenslu, afleiðingin verður bara sú að bankarnir fá stærri hlut til sín af kökunni þegar svona er haldið á málum. Ég heiti hæstvirtan ráðherra stuðningi í því að afgreiða þetta mál fljótt og vel í nefndinni þannig að hægt verði að fara fyrr í hækkun á lánshlutfallinu, í 90%. Ég skora á hæstvirtan ráðherra að endurskoða ákvörðun sína varðandi hámarksfjárhæðina vegna þess að afleiðingin verður einungis sú að Íbúðalánasjóður mun í vaxandi mæli missa hlutdeild sína í fasteignaviðskiptum ef svo hægt er farið í sakirnar. Þetta hefur engin áhrif á verðbólguna eða þensluna, þessi viðskipti munu bara flytjast til yfir í bankana frá Íbúðalánasjóði.

Það eru miklir einfeldningar sem halda að Sjálfstæðisflokkurinn hefði getað komið í veg fyrir þá hækkun húsnæðislána sem nefndarmenn Rannsóknarnefndar gagnrýna nú. Og það er til marks um íslenska fréttamenn, sem hafa gert mikið úr gagnrýni nefndarmannanna og endurtekið orð þeirra um Geir Haarde hvað eftir annað, að enginn þeirra segir frá áköfum stuðningi Jóhönnu Sigurðardóttur við málið. Stuðningi sem allir vissu af og gerði það að verkum að meirihluti var fyrir málinu á þingi, hvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði um það að segja.

Jóhanna hefði viljað ganga lengra og hraðar. Og á Alþingi benti hún á líklega skýringu þess að ekki hefði verið gengið lengra, og það er skýring sem ekki er víst að rannsóknarnefndarmenn hafi áhuga á:

Ég sé að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti. Ég hef beint ýmsum spurningum til hæstvirts ráðherra. Ég held að staðan sé raunverulega sú að hæstvirtur ráðherra hafi verið píndur af Sjálfstæðisflokknum til að ganga ekki lengra varðandi þá breytingu sem hér er að ganga í gegn um hækkun á lánshlutfalli.