Fimmtudagur 29. apríl 2010

119. tbl. 14. árg.
Við segjum: Burt með pukrið.
[Ég hef] lagt til að í framtíðinni muni Samfylkingin sjálf opna sitt bókhald.
– Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar í ræðu á landsfundi hennar 18. nóvember 2001.
 
Þiggi flokkur fjárhæð yfir ákveðnu marki eigum við siðferðilegan rétt á að vita af því. Einfaldlega vegna þess að enginn vafi má leika á um að ítök hans í viðkomandi flokki bitni á almannahagsmunum, eða að hann njóti óeðlilegrar fyrirgreiðslu.
– Björgvin G. Sigurðsson framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar í ávarpi í Málinu Skjá 1 2002.

N ú um stundir virðist ekki nokkur leið að halda uppi samræðum við hana Jóhönnu Sigurðardóttur eða aðra samfylkingarmenn um milljónatugina sem flokkurinn og frambjóðendur hans þáðu af ýmsum fyrirtækjum árið 2006 án þess að þeir leiði talið að ljóta Sjálfstæðisflokknum og þeim styrkjum sem hann og frambjóðendur hans drógu í búið. 

En er Sjálfstæðisflokkurinn góð fjarvistarsönnun fyrir Samfylkinguna í þessum efnum?

Nei.

Áratugum saman hafa Samfylkingarmenn og forverar þeirra sett sig á háan hest gagnvart styrkjum til stjórnmálastarfs, nema auðvitað ríkisstyrkjum. Hvað voru samþykktar margar ályktanir á flokksþingum Samfylkingarinnar um opið bókhald? Hvað hafa forsvarsmenn hennar haldið margar innblásnar ræður gegn pukrinu og fyrir siðferðinu? Hefur einhver samfylkingarmaður lokið samræmdu prófunum án þess að kunna að segja frá mikilvægi opins bókhalds?

Hins vegar lagði Samfylkingin eða helstu frambjóðendur hennar aldrei fram bókhald sitt eða aðrar upplýsingar að gagni um styrki frá fyrirtækjum eða einstaklingum. Allra síst á styrkjaárinu mikla 2006. Þá streymdu milljónatugir í kosningasjóði flokksins og frambjóðenda í prófkjörum. Enginn styrkþegi í prófkjörum Samfylkingarinnar 2006 lagði fram bókhald, hvað þá opið bókhald. Jafnvel Árni Páll Árnason starfsmaður nefndar allra flokka um fjármál stjórnmálasamtaka tók þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi 5. nóvember 2006 án þess að fara í nokkru að þeim reglum sem nefndin lagði til tveimur vikum síðar. Hann fór langt fram úr þeirri hámarksfjárhæð styrkja (kr. 300 þúsund) sem nefndin hans lagði til, hann þáði styrki frá fjárhagslega tengdum aðilum og birti auðvitað engar upplýsingar um styrkina þótt það væru helstu tillögur nefndarinnar að menn ættu að gera einmitt það. Hvernig þótti Árna Páli að setja þessar reglur á blað á sama tíma og hann hafði þær að engu? Var hann fullkomlega ósammála nefndinni sem hann starfaði fyrir? Þetta hefur verið erfið lífsreynsla.

Styrkir til Samfylkingarinnar árið 2006 og leyndin sem hvíldi yfir þeim var þvert á það sem samfylkingarmenn höfðu boðað. Þeir „pukruðust“ þegar þeir höfðu hrópað „burt með pukrið“. Þeir buðu ekki upp á „opið bókhald“ sitt svo sjá mætti hvaðan styrkir kæmu þótt þeir hefðu messað um það árum saman. Þeir veittu kjósendum aldrei „siðferðilegan rétt á að vita af því“ þegar háar fjárhæðir streymdu í kosningasjóði.

Vandi samfylkingarmanna er ekki bara að þeir þáðu háa styrki heldur miklu frekar að þeir höfðu heitið því að gera það ekki nema það væri fyrir opnum tjöldum. Þeir gengu á bak þeirra orða sinna. Samfylkingin brást eigin málstað.

Sjálfstæðisflokkurinn lofaði hins vegar aldrei að birta eitt eða neitt um fjármál sín umfram það sem lög flokksins sjálfs kváðu á um. Almennt voru frambjóðendur hans ekki með hroka gagnvart því að stjórnmálastarf væri styrkt með frjálsum framlögum fyrirtækja og einstaklinga. Það var fátítt að frambjóðendur flokksins væru með yfirlýsingar um opið bókhald.

Og ekkert bendir enn til að framlög til Sjálfstæðisflokksins og frambjóðenda hans hafi „farið úr böndum“ – hvað sem það þýðir nákvæmlega – fyrr en haustið 2006 og þá í undantekningartilvikum. Þá söfnuðu stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns og fulltrúa í  nefndinni góðu um fjármál stjórnmálasamtaka, til að mynda 24,8 milljónum fyrir prófkjör í lok október. Ekkert liggur hins vegar fyrir um hvort þeim tókst að koma 24,8 milljónum í lóg á þeim stutta tíma sem prófkjörsbaráttan stóð. Er mögulegt að eyða um 1 milljón króna á dag á prófkjörsskrifstofu í nokkrar vikur samfellt? Það veit enginn því Guðlaugur Þór hefur ekki birt reikning prófkjörsins þótt hann hafi lagt það til á sama tíma að slík birting væri leidd í lög. Guðlaugur Þór ýtti svo fjársöfnun úr vör fyrir flokkinn sjálfan í desember 2006, eftir að hann hafði greitt lagafrumvarpinu sem bannaði styrki umfram 300 þúsund krónur atkvæði sitt. Fjársöfnunin skilaði flokknum tveimur styrkjum upp á 25 og 30 milljónir króna nokkrum dögum áður en lögin tóku gildi. Þeir styrkir urðu mjög mikill fjölmiðlamatur rétt fyrir þingkosningar á síðasta ári og hafa líklega kostað flokkinn talsvert fylgi.