Fimmtudagur 22. apríl 2010

112. tbl. 14. árg.

K olbrún Bergþórsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu ritar greinina „Smásálir í borgarstjórn“ í blaðið sitt í dag. Tilefni skrifanna eru afskipti borgaryfirvalda af Hrafni Gunnlaugssyni og verkum hans í Laugarnesi.

Til er sú manngerð sem festir sig í reglum og reglugerðum og lítur svo á að ekki megi breyta því sem þar standi. Reglur eru reglur, segir þetta fólk og telur skelfilegt veikleikamerki að veita undanþágur. Það sé brot á mikilvægri jafnræðisreglu og auk þess geti það riðlað skipulaginu. Þegar þessi manngerð kemst til áhrifa er hún engum til sérstakrar skemmtunar, af því hún er í eðli sínu smásál. Smásálir hafa engan áhuga á manneskjum, þeim finnst að allir eigi að vera nokkurn vegin eins, og til friðs.

Svo mörg voru þau orð. Vefþjóðviljinn minnist þess vart að hafa lesið svo beinskeyttan texta á gegn reglugerðaflóðinu, gegn þeirri tilhneigingu að steypa alla í sama mót, gegn því að staðla alla skapaða hluti, gegn skipulagsáráttunni, gegn jafnræðisflatneskjunni, gegn því að skriffinnar hafi fólk algerlega á valdi sínu.

Ef Vefþjóðviljinn hefði eitthvað um stefnuskrá Heimssýnar að segja myndi hann mæla með því að þessi texti yrði settur í stefnuskrá félagsins. Þá er vel mögulegt að þeim tækist að snúa eins og einum blaðamanni á Morgunblaðinu.

S tjórnmálamenn vítt og breitt um Vesturlönd leggja nú fram lagafrumvörp sem þeir segja að tryggja muni að bankar fari að öllu með gát í rekstri sínum, verði ekki gjaldþrota. Það má ekki endurtaka sig að stjórnendum banka verði á mistök, segja þeir með alvörusvip.

En hvers vegna ekki að nota töfraþuluna á aðrar atvinnugreinar einnig? Það er ótrúlega víða sem fyrirtæki verða gjaldþrota, eigendum þeirra og kröfuhöfum til mikils ama. Ef búið er að semja lög sem koma í veg fyrir slæmar ákvarðanir í viðskiptum er ástæðulaust að láta einungis fjármálafyrirtæki njóta þeirra. Flugfélög, fjölmiðlar, verktakar, bílasalar og fleiri eru sífellt að renna á rassinn með reksturinn. Er ekki hægt að setja þau undir þessar fínu reglur líka?

SS teingrímur J. Sigfússon gagnrýndi forseta Íslands harðlega fyrir að tala um Kötlu við útlendinga í vikunni. Eru ekki pukur og leyndarhyggja fjármálaráðherrans orðin alveg rífleg þegar hann reynir fela Kötlu gömlu uppi á háalofti þegar gesti ber að garði?

Er hann búinn að semja við Björn Val Gíslason og Guðbjart Hannesson að hlaupa um Mýrdalssand með huliðsblæju þegar hún fer að gjósa?

Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins benti landsmönnum svo góðfúslega á að eldfjöllin hér væru ekkert spes miðað við helstu eldfjöll í ESB. Er það framhald á sagnabálki Egils: Allt er betra í útlöndum. Áður hafði Egill frætt landsmenn um að efnahagur ESB ríkisins Grikklands væri ekki síður blómlegur en Íslands enda væri Grikkland í ESB.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars.