E f að athafnamaður ákveður að fara út í verslunarrekstur, þá gerist það með eftirfarandi hætti: Hann ákveður hversu margar verslanir hann vill reka, svo ákveður hann rekstrarlegar forsendur verslananna og loks ræður hann verslunarstjóra. Þegar þessu er lokið ákveða verslunarstjórarnir – en alls ekki eigandinn – hvers konar verslun þeir ætla að reka, til dæmis hvort að verslunin eigi að selja föt eða heimilistæki, tannkrem eða felgulykla. Að því búnu ákveða þeir hvort að boðin verður gæðavara eða hvort reynt verður að pranga inn á viðskiptavini ónýtu drasli.
Gunnar Smári Egilsson forstjóri Dagsbrúnar heldur því fram að hann og aðrir eigendur DV ráði engu um ritstjórnarstefnu DV. |
Nú er vitaskuld öllum ljóst að verslanir verða ekki til með þeim hætti sem lýst er hér að ofan þrátt fyrir fullyrðinguna í upphafi um annað. Og öllum er vafalaust jafn ljóst að fjölmiðlar verða ekki til og eru ekki reknir með þeim hætti sem Gunnar Smári Egilsson forstjóri Dagsbrúnar, sem er skráð hlutafélag og gefur meðal annars út DV, lýsti í viðtölum við sjónvarpsstöðvar í gær. Gunnar Smári hélt því stöðugt og ítrekað fram að það væri ritstjóranna einna að móta ritstjórnarstefnu blaða sinna en eigendur kæmu þar hvergi nærri og ættu ekki að koma þar nærri enda væri „ritstjórnarlegt frelsi“ þar með í voða. Spurður að því í hádegisviðtali á NFS, sem er í eigu Dagsbrúnar, hvort að eigendur hljóti ekki að vilja móta hvernig blað þeir vilji eiga, sagði Gunnar Smári: „Stjórnin mótar náttúrlega að við ætlum að halda úti tveimur dagblöðum, Fréttablaðinu og DV, mótar fjölda miðlanna, mótar svona rekstrarlegar forsendur þeirra og annað slíkt“. Ritstjórar blaðanna móti svo ritstjórnarstefnuna og það muni nýir ritstjórar DV nú gera. Eigendurnir komi þar hvergi nærri. Það má samkvæmt því gera ráð fyrir að eigendurnir bíði nú spenntir eftir því að skoða helgarblað DV til að sjá hvers konar blað ritstjórarnir nýju hafi ákveðið að eigendurnir skuli gefa út.
Í Kastljósi gærkvöldsins á Ríkissjónvarpinu var Gunnar Smári spurður hvort að eigendur hefðu verið sáttir við að reka DV og svaraði hann því til að það mætti lesa af verkunum, sem er út af fyrir sig afar athyglisverð yfirlýsing, en svo sem lítið annað en augljós sannindi. Það er nefnilega ekki þannig að eigendur séu ofurseldir vilja ritstjóra sem þeir ráða í vinnu. Það er ekki þannig að stjórn fyrirtækis ákveði að stofna til blaðaútgáfu og svo ráðist það bara af skoðunum ritstjórans eða ritstjóranna hvers konar blað þeir gefi út. Ritstjóri getur til dæmis ekki í andstöðu við eigendur fréttablaðs ákveðið að breyta því í klámblað. Og ritstjóri getur ekki heldur nema með vilja eigendanna ákveðið að breyta fréttablaði í rætið slúðurblað. Þetta gefur auga leið og þarf varla að ræða, en er þó því miður nauðsynlegt vegna þess að forstjóri almenningshlutafélagsins Dagsbrúnar kaus í gær að bjóða almenningi upp á ótrúleg ósannindi.
Viðtölin við Gunnar Smára voru ekki einungis athyglisverð vegna þess að hann kaus að reyna að afvegaleiða almenning, heldur einnig vegna þess að hann upplýsti um afkomu DV. Síðustu mánuði og misseri hefur því oft verið velt upp hvort að DV sé ekki rekið með tapi, enda kaupendur fáir, frídreifing mikil og auglýsingar af skornum skammti. Þessu hefur ítrekað verið mótmælt, allt þar til í Kastljósinu í gær þar sem Gunnar Smári viðurkenndi að DV væri rekið með tapi. Hann sagði að vísu að tapið á hverjum degi væri „sáralítið“ og að hans mati væri afkoman „viðunandi“. Það breytir því hins vegar ekki að DV hefur verið rekið með tapi en ekki hagnaði eins og ítrekað hefur verið haldið fram.