Föstudagur 13. janúar 2006

13. tbl. 10. árg.
Þar sem þessi kvótakerfi hafa verið tekin upp hafa þau gjörbreytt veiðunum. Veiðitímabil hafa lengst. Veiðitímabilið fyrir lúðuveiðar við Alaska lengdist út tveimur til þremur dögum á ári upp í átta mánuði. Það þýðir að að útgerðin getur hugað betur að aflanum, valið besta tímann til veiða og stundað veiðarnar af meira öryggi. Neytendur fá ferskan fisk stóran hluta ársins í stað nokkurra daga áður og þeir sem taka ákvörðun um leyfilegan heildarafla hafa betri stjórn á því sem raunverulega veiðist.
– Donald R. Leal, The Providence Journal 9. janúar 2006.

Donald R. Leal hefur ritað nokkrar bækur um þann vanda sem steðjar að vegna ofveiði á mörgum fiskistofnum. Í grein sinni í The Providence Journal, sem gefið er út í Rhode Island í Bandaríkjunum, um síðustu helgi segir hann að strandveiðar við Bandaríkin séu í sjálfheldu. Um þriðjungur fiskistofna sé ofveiddur. Hann bendir á að án eignarréttar á nýtingu fiskistofnanna hafi útgerðarmenn lítinn ávinning af því að vernda fiskistofnana. Þeir veiði því of mikið og stefni þar með framtíðarnýtingu í voða. Undanfarna þrjá áratugi hafi stjórnvöld í Bandaríkjunum reynt að leysa þennan vanda með því að segja útgerðarmönnum hvar, hvernig og hvenær þeir megi stunda sjóinn. Þessar reglur hafi hins vegar skapað meiri vanda en þeim var ætlað að leysa. Þegar veiðitímabil sé komið niður í tvo til þrjá daga eins og á lúðuveiðunum í Alaska fari fram taumlaust kapphlaup þar sem öryggi áhafnar sé stefnt í voða og úrvinnsla aflans sé látin bíða þar til kapphlaupið er yfirstaðið. Þess séu jafnvel dæmi frá Alaska að ekki hafi tekist að vinna allan lúðuaflann áður en hann skemmdist, slíkt var veiðiæðið þessa fáu leyfilegu daga. Það segi sig sjálft að þegar svo mikill afli berst á land á svo stuttum tíma þurfi að frysta megnið af honum.

Þessi stuttu veiðitímabil leiði til þess að menn offjárfesti í stórum og dýrum bátum til að ná sem mestum afla á sem skemmstum tíma. Þess séu dæmi að tíundi hver bátur dygði til að koma heildaraflanum á land.

Leal segir að góðu fréttirnar séu þær að til sé kerfi sem leysi þennan vanda. Með því að úthluta útgerðarmönnum kvóta, sem yfirleitt sé hlutfall af leyfilegum heildarafla, geti þeir sem vilja hefja veiðar keypt sig inn í kerfið og þeir sem vilja út selt sinn hlut. Hann nefnir að ýmis lönd standi Bandaríkjunum mun framar hvað þetta varðar. Ísland og Nýja-Sjáland hafi nýtt þetta kerfi fyrir flestar tegundir, Kanada fyrir tvo þriðju tegunda og Ástralía, Grænland og Holland fyrir nokkrar tegundir. Yfirleitt hafi kvótakerfið leitt til betri afkomu, minni offjárfestingar í veiðibúnaði, betri afurða, öruggari veiða, minni ofveiði og minna brottkasts annarra tegunda.

Nú ætli ríkisstjórn Bush hins vegar að leggja frumvarp fyrir þingið sem gerir meðal annars ráð fyrir notkun kvóta af þessu tagi. Gera má ráð fyrir að nokkur af helstu útgerðarsvæðum Bandaríkjanna verði sett undir þetta kerfi.

Það er fjörlegasta, litríkasta, líflegasta og ósvífnasta blaðið á Íslandi í dag“ skrifaði Össur Skarphéðinsson fyrir nokkrum vikum um DV. Hann sagðist stundum vera ósáttur við uppsetningu forsíðunnar og stundum væri blaðið svo berort að það væri varla við barna hæfi – um það hafði Össur eitt dæmi, barnalegar greinar eftir einhvern Gilzenegger – en að öðru leyti væri „DV ákaflega vel heppnað blað“. Össur stærði sig af því að vera fastur pistlahöfundur í þessu blaði.

Nokkur önnur skoðun birtist hins vegar í gær hjá alnafna hans, Össuri Skarphéðinssyni, manni sem stundum var nefndur mesti vindhani íslenskra stjórnmála, sem velti fyrir sér hvort Jónas Kristjánsson myndi næst skrifa leiðara um það hvernig væri að leika Guð.

Það var að vonum að gengi Dagsbrúnar, móðurfélags DV, féll mest allra í kauphöllinni síðustu daga. Næst mest lækkaði Össur.