Helgarsprokið 28. ágúst 2005

240. tbl. 9. árg.

Enn og aftur vilja embættismenn Evrópusambandsins (ESB) koma sauðsvörtum og fáfróðum almúga aðildarríkjanna til bjargar. Loksins ætlar ESB að bregðast af hörku við sólinni, enda ljóst að hún er barmstórum afgreiðslustúlkum á útiveitingahúsum álfunnar skeinuhætt. Og fyrst ekki er hægt að ná lögum yfir sólina, sem engu gegnir, þá er næstbesti kosturinn að setja lög og reglur um klæðaburð fólks. Því hefur ESB áform um að setja reglur um klæðnað kvenna sem sinna veitingaþjónustu utandyra. Ganga hugmyndirnar út á að þeir sem reka útikaffihús, -bari og -veitingahús sjái til þess að kvenkyns starfsfólk sem þjónar úti við sé þannig klætt að ofanverður barmur þeirra sé vel hulinn, svo að hættulegir geislar sólarinnar nái ekki að skína á hann. Það hefur í för með sér að öllum konum í ESB verður bannað að þjóna úti við í flegnum eða víðum kjólum og bolum. Hafa gamansamir bent á að klæðnaður eins og Amishkonur í Bandaríkjunum klæðast muni henta vel. Hefur hugmyndinni verið harðlega mótmælt og hafa Þjóðverjar sérstaklega látið í sér heyra, enda ljóst að októberhátíðin í Bæjaralandi yrði ekki svipur hjá sjón ef konum yrði bannað að þjóna í hinum hefðbundna kjól, dirndl.

Það væri nú kannski ekki algalið að ESB stigi skrefið til fulls og legði þær skyldur á herðar þeirra sem reka útiveitingahús að þeir sæju um að starfsfólk þeirra bæri undantekningarlaust barðastóra hatta, til dæmis mexíkanska sombreróa, til að varna því að geislar sólarinnar skíni á andlit fólks. Enda eru geislar sólarinnar ekki síður hættulegir andlitum, svo ekki sé talað um sköllum, en ofanverðum barmi.

„Þetta er ekki bæjarstjórnin í Stubbekøbing á Sjálandi, sem kjósendur geta skipt út í næstu kosningum, fari vitleysan í taugarnar á þeim. Nei, hugmyndin kemur frá ESB…“

Það væri jafnframt fróðlegt að fá að vita hvernig embættismenn ESB sjá fyrir sér að reglunum verði framfylgt. Vefþjóðviljinn bendir í því sambandi á, að ESB gæti lært mikið af trúarlögreglunum í Íran og Sádí-Arabíu, en þær hafa einmitt náð góðum árangri í að hamla gegn undarlegum hugmyndum almennings um það hvernig rétt sé að klæðast á götum úti. Þannig ganga óeinkennisklæddir lögreglumenn um göturnar með góð prik og svipur innanklæða og húðstrýkja firrtar konur sem láta sér detta í hug að ganga um göturnar með óhulið hár eða í svo ermastuttum flíkum að það sést í úlnliði þeirra. Svo ekki sé talað um konu og karl sem voga sér að vera með augngotur hvort til annars. Og sem betur fer hefur lögreglan í þessum ríkjum úrræði gagnvart þeim sem þrjóskast við, þeir svipta menn frelsinu á svipstundu, hunskist þeir ekki til að hlýða sjálfsögðum skipunum trúarlögreglunnar. Til þess að kerfið sé nægilega skilvirt eru menn ekkert að flækja ferlið með dómurum eða þess háttar, enda eru þessir þjónar laganna allir vel að sér um fræði Kóransins. Að þeir túlki reglurnar eilítið frábrugðið hver öðrum skiptir auðvitað minna máli en að grundvallarhugsun alvitra embættismanna ríkisins sé nokkurn veginn virt.

Það dettur auðvitað fáum í hug að hugmyndin með reglunum um að hylja barminn sé af illum hug sprottin. Örugglega gengur þeim sem fá hugdettuna og þeim sem setjast niður og funda um og semja um þessar reglur, gott eitt til. Leiðin til ánauðar er vörðuð góðum fyrirætlunum. En það eru auðvitað takmörk fyrir því hvað hið opinbera getur skipað fólki fyrir um án þess að gengið sé nærri persónufrelsi þess og takmörk fyrir þeim reglum sem hið opinbera á möguleika á að framfylgja. Það virðist þó oft vefjast fyrir hinu opinbera í ýmsum ríkjum, sérstaklega í verðandi sambandsríkinu ESB.

Það alvarlegasta í þessu máli er auðvitað hvaðan hugmyndin kemur. Þetta er ekki bæjarstjórnin í Stubbekøbing á Sjálandi, sem kjósendur geta skipt út í næstu kosningum, fari vitleysan í taugarnar á þeim. Nei, hugmyndin kemur frá ESB og yrðu reglurnar rétthærri lögum aðildarríkjanna. Og þær eru settar af embættismönnum sem lítið eða ekkert lýðræðislegt eftirlit er með. Borgarar aðildarríkjanna geta ekki látið óánægju sína í ljós með því að fella hreppstjórnina í næstu kosningum, eða ríkisstjórnina. Kjósendur hafa harla litla, ef nokkra, möguleika á að koma lýðræðislegum skilaboðum til þeirra sem ákvörðunina taka.

Lýðræðinu er ekki gert hátt undir höfði í ESB og er það alvarlegt í ljósi þess á hversu mörgum sviðum sambandið getur nú sett lög og reglur sem eru rétthærri reglum aðildarríkjanna. Svo alvarlegt að varla er hægt að hafa það í flimtingum.