Laugardagur 27. ágúst 2005

239. tbl. 9. árg.

Einn áhrifamesti stuðningsmaður evrunnar í Bretlandi, Kenneth Clarke þingmaður Íhaldsflokksins, hefur fallið frá stuðningi sínum, að því er segir í frétt á vef Heimssýnar. Clarke mun hafa sagt að evran hefði ekki reynst sá efnahagshvati eða stuðlað að þeim efnahagsumbótum og hagvexti sem stuðningsmenn hennar hefðu lofað. Þá segist hann hafa ofmetið getu evrunnar til að styrkja efnahag Evrópusambandsins, en hann hefði trúað því að evran mundi leiða til aukinnar framleiðni, skilvirkni og hagsældar, auk þess að ýta undir umbætur. Evran hefði því reynst misheppnuð og miðstýrðir stýrivextir hefðu leitt til ýmissa erfiðleika fyrir aðildarríkin.

Þá segir Clarke, sem lengi hefur verið helsti stuðningsmaður Evrópusambandsins innan Íhaldsflokksins, að forystumenn Evrópusambandsins ættu að gleyma fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins, en áður var hann stuðningsmaður hennar. Hann segir tilgangslaust að reyna að koma á meiri samruna innan Evrópusambandsins nema íbúar aðildarríkjanna styddu þann samruna.

Svo virðist þó sem forystumenn Evrópusambandsins hafi lítinn áhuga á að fara að ráðum Clarke um að íbúar eigi að hafa nokkuð um stjórnarskrá og samruna ríkja Evrópusambandsins að segja. Á vef Heimssýnar er einnig sagt frá grein eftir Daniel Hannan þingmann breska Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins. Í greininni segir Hannan að menn kunni að hafa fengið þá mynd af stjórnarskránni að eftir að bæði Frakkar og Hollendingar hafi hafnað henni í þjóðaratkvæðagreiðslu þá væri hún dauð. Svo sé þó ekki, því að verið sé að innleiða hana, grein fyrir grein, rétt eins og hún hefði aldrei verið felld.

Hannan segir að innan Evrópusambandsins sé litið svo á að þar sem að þing 13 ríkja af 25 hafi samþykkt stjórnarskrána þá sé hægt að halda áfram að innleiða texta hennar eins og ekkert hefði í skorist, þrátt fyrir að Frakkar og Hollendingar hafi hafnað henni í þjóðaratkvæði. „Flestar stofnanirnar sem stjórnarskráin hefði heimilað hafa annað hvort þegar hafið störf eða þá að verið er að koma þeim á fót,“ segir Hannan.

Samtök norrænna kirkjugarða halda þing í Reykjavík þessa dagana. Yfirskrift þingsins er „Kirkjugarðurinn sem verustaður“.
Hverjir ætli verði frummælendur undir þeim dagskrárlið?

SStarfsmaður Ríkisútvarpsins var á dögunum leystur undan frekari fréttavinnslu vegna mjög harðra ummæla sem hann hafði látið falla um nokkra nafngreinda einstaklinga, þjóðkunna úr viðskiptum, á persónulegri heimasíðu sinni. Gott og vel. Og sérstaklega ánægjulegt að aldrei þessu vant byrjaði enginn að tala um „ógnarstjórn“, „aðför að tjáningarfrelsi“ eða spyrja hvort einhver hafi þrýst á um að manninum yrði sýnd harka.

Ígær var Guðmundur Benediktsson, sem um áratugi var einn svipmesti ráðuneytisstjóri landsins borinn til grafar. Forsætisráðuneytið flaggaði í virðingarskyni við hinn látna, fyrst í hálfa stöng á meðan á útförinni stóð en svo var fáinn dreginn að húni að henni lokinni eins og venja er. Þar hafði hann ekki fengið að vera lengi þegar tveir menn klifruðu upp á þak stjórnarráðshússins, tóku íslenska fánann niður, og festu í staðinn upp borða með áletruninni „Engin helvítis álver“.

Það er vafalaust til lið sem telur að lögreglan hafi ekki átt að taka þá ofan af þakinu.