Föstudagur 26. ágúst 2005

238. tbl. 9. árg.

U

Nú er hægt að kaupa aflátsbréf gegn þeirri hlýnun andrúmsloftsins sem menn telja bílinn sinn valda.

ndanfarin ár hefur fátt valdið ýmsum mönnum jafn miklum áhyggjum og hlýnun andrúmslofts jarðar vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Daglega berast fréttir af þeim hörmungum sem hlýnunin á að leiða yfir mannkynið. Sjálfsagt vildu margir losna undan því að bera hugsanlega ábyrgð á þessari hlýnun. En það er erfitt að komast hjá því að senda frá gróðurhúsalofttegundir á meðan stærstur hluti orkunnar fæst með brennslu olíu og annars jarðefnaeldsneytis. Til dæmis hljóta margir umhverfisverndarsinnar og opinberir starfsmenn að hafa samviskubit þegar þeir flakka heimsenda á milli til að ræða gróðurhúsavandamálið og strókurinn stendur aftan úr bílunum og flugvélunum sem þeir ferðast með.

En þar sem er eftirspurn þar má eiga von á framboði. Nú hafa nokkur fyrirtæki hafið sölu á nokkurs konar aflátsbréfum fyrir syndum mannanna gegn himinhvolfinu. Fyrirtækið TerraPass er eitt þeirra. Gegn greiðslu grípur fyrirtækið til mótvægisaðgerða gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Það gerir fyrirtækið meðal annars með því að aðstoða iðnfyrirtæki við að draga úr útblæstri. Á vef fyrirtækisins geta menn reiknað út hvað fjölskyldubíllinn gefur frá sér mikið magn gróðurhúsalofttegunda á ári. Toyota Corolla af árgerð 2005 sem ekið er 12.800 km á ári gefur samkvæmt reiknivélinni frá sér 2085 kg af CO2 á ári. TerraPass tekur um 1.995 krónur á ári fyrir að losa menn við þann bagga.

Fleiri fyrirtæki hafa blandað sér í þennan slag. Meðal þeirra er CarbonFund sem kaupir einfaldlega útblásturskvóta af iðnfyrirtækjum á markaðnum Chicago Climate Exchange og leggur hann til hliðar.

Íslendingar geta auðvitað átt viðskipti við þessi fyrirtæki ef þeir kæra sig um og ef þessi viðskipti reynast ábatasöm má gera ráð fyrir að sambærileg fyrirtæki spretti upp hér á landi og bjóði bíleigendum aflausn gagnvart gróðurhúsaguðinum. Þau munu þá væntanlega reyna að semja við fyrirtæki sem eru með slaka orkunýtingu um að bæta ráð sitt. Til dæmis liggur beint við að einhver bjóði Strætó bs. upp á slíkt samstarf.

Að minnsta kosti hlýtur að mega fullyrða að þeir, sem hingað til hafa talað um að ekki megi hugsa um peninga og eigin gróða þegar gróðurhúsaáhrif séu annars vegar, verði öflugir viðskiptavinir þessara fyrirtækja.