Mánudagur 29. ágúst 2005

241. tbl. 9. árg.

Eins og menn vita þá var starfsmanni Ríkisútvarpsins á dögunum vikið frá fréttavinnslu vegna óvæginna orða sem hann hafði, á persónulegri heimasíðu sinni, látið falla um nokkra menn úr viðskiptalífinu. Þetta mál er á margan hátt áhugavert. Í fyrsta lagi má auðvitað halda því fram, að fyrirtæki megi setja þær reglur sem því sýnist um framkomu starfsmanna sinna og svo ráðist það bara hvort einhver vill vinna hjá fyrirtækinu undir þeim reglum. En þá þarf auðvitað að gera starfsmanninum grein fyrir þeim reglum fyrirfram, nema þá að þær séu svo augljósar að ekki þurfi um þær að tala. Í því dæmi sem hér ræðir um, þá vakna fleiri spurningar. Hefur Ríkisútvarpið sett sér reglur um framkomu og orðaval starfsmanna sinna utan vinnutíma? Og hvað ef starfsmaður gerir eitthvað annað af sér en að gagnrýna einhverja menn? Hvernig tæki Ríkisútvarpið á því ef starfsmaður þess æki drukkinn, lenti í ryskingum á balli, teldi rangt fram til skatts, eða gerði eitthvað annað sem væri líklegt til þess að ýmsir tækju að efast um dómgreind hans?

Og, eins og spurt hefur verið, hvernig hegðuðu starfsmenn Ríkisútvarpsins fyrir örfáum mánuðum þegar útvarpsstjóri tók löglega ákvörðun um mannaráðningu sem þeim mislíkaði? Hvernig voru stóryrðin þá? Felldu mennirnir ekki niður fréttatíma í reiði sinni? Hvað segir það um „dómgreind“ þeirra? Hver þeirra hefur verið færður úr fréttavinnslu vegna framkomu sinnar í tengslum við þau mál? Reyndu þeir ekki að koma útvarpsstjóra úr starfi? Þessi framkoma þeirra tengdist vinnustað þeirra augljóslega – mennirnir hreinlega gengu svo af göflunum að það voru ekki sendar út fréttir. Svo koma sömu menn og víkja frá starfi – vegna efasemda um dómgreind hans – manni sem á persónulegri heimasíðu sinni hefur uppi orð um tiltekna menn í viðskiptalífinu. Mennirnir sem töldu sjálfa sig eiga fréttastofuna og ráða því sjálfa hvort þar yrðu sendar út fréttir eða ekki, þeir telja sig geta rekið aðra menn vegna efasemda um dómgreind þeirra.