Þriðjudagur 30. ágúst 2005

242. tbl. 9. árg.

Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingar nýtur nú óvænts umtals ýmissa manna sem munstra hann í stól borgarstjóra. Þetta kemur á óvart eftir að Össur var felldur með afgerandi kosningu úr formannsstóli í Samfylkingunni og ekki síður vegna þess að í mörg ár hefur verið mikið talað um að Össur eigi við „trúverðugleikavandamál“ að stríða.

Nánast um leið og Össur er laus við formannsstólinn nýtur hann óvæntrar hylli og trausts í eitt af veigamestu embættum þjóðarinnar. Kannski að skortur á trúverðugleika hafi bara alls ekki verið bundinn við persónu Össurar. Miðað við gengi nýs formanns Samfylkingarinnar mætti fremur ætla að trúverðugleikavandamálið sé bundið við Samfylkinguna sjálfa og formannsstólinn þar á bæ.

Staksteinar Morgunblaðsins blésu í gær eina ferðina enn til sóknar gegn frjálshyggjunni í Sjálfstæðisflokknum. Tilefnið var að frambjóðandi í efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafði látið þau orð falla að lítill málefnaágreiningur væri milli sín og annarra frambjóðenda innan flokksins. Að þessu tilefni kvartar Morgunblaðið undir því að frjálshyggja hafi vaðið uppi í Sjálfstæðisflokknum undanfarin ár.

Á hverju skyldi blaðið merkja það?

Einkavæðingu fjármála- og atvinnufyrirtækja? Hún hefur vissulega átt sér stað á síðustu fimm árum en víða annars staðar var henni löngu lokið.

Skattalækkunum? Þær hafa vissulega átt sér stað undanfarin ár en þótt tekjuskattur einstaklinga hafi lækkað undanfarin ár er hann enn hærri en hann var þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp.

Afnámi félagslegrar aðstoðar við fullfrískt fólk? Dýrasta félagslega verkefni í sögu ríkissjóðs er nýkomið á koppinn með lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Ábyrgðar í ríkisfjármálum? Framúrkeyrslan við dýrasta félagslega verkefni ríkissjóðs var 180%.

Þróun ríkisútgjalda?  Ríkisútgjöldin hafa aukist svo hratt að undanförnu að Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna, treystir sér ekki lengur til að halda upp á þann dag ársins þegar menn hætta loks að vinna fyrir sköttunum og byrja að vinna fyrir sjálfa sig. Skattadagurinn var í byrjun júní fyrir nokkrum árum, en er kannski ekki komið að honum í ár?

Staksteinar Morgunblaðsins segja meðal annars:

Svonefndir frjálshyggjumenn hafa verið áhrifamiklir í Sjálfstæðisflokknum síðustu tvo áratugi og skal ekki gert lítið úr málefnalegu framlagi þeirra til stjórnmálabaráttunnar á þessum tíma. Nú er staðan hins vegar augljóslega sú, að til þess að vinna meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur þarf Sjálfstæðisflokkurinn að ná inn á miðjuna. Hvernig verður það bezt gert? Hvaða frambjóðandi er líklegastur til þess? Hverjir úr borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna hafa lagt mezta áherzlu á miðjupólitík undanfarin ár? Sem einu sinni var kallað miðjumoð!

Morgunblaðið vill að Sjálfstæðisflokkurinn breyti sér í Framsóknarflokk til að ná inn á miðjuna. Til hvers að bjóða fram annan Framsóknarflokk? Verður ekki Framsóknarflokkurinn alltaf trúverðugri í miðjumoðinu en Sjálfstæðisflokkurinn? Er ekki verðugra verkefni að höfða til miðjumanna með skynsamlegri hægristefnu? Það er hægt að vinna frjálslyndum viðhorfum stuðnings eins og einkavæðing ríkisfyrirtækja, sem var eitur í beinum margra Framsóknarmanna fyrir fáum árum, ber með sér. Það er engu líkara en að Morgunblaðið haldi að kjósendur séu markaðir ákveðnum skoðunum til eilífðar. Íslenskir stjórnmálaflokkar, allt fram að stofnun Samfylkingarinnar, voru stofnaðir til að menn með svipaðar skoðanir gætu unnið þeim fylgi með því að hafa áhrif á skoðanir annarra en ekki til hlaupa á eftir ímynduðum viðhorfum í þjóðfélaginu hverju sinni.

Ánæstu 20 mánuðum verður kosið bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Í öllum flokkum verða raddir eins og Morgunblaðsins um að sækja inn á miðjuna og elta skoðanakannanir til að auka fylgi. Vefþjóðviljinn verður hins vegar ekki í framboði og mun halda áfram að kynna sömu sjónarmið og hann hefur gert undanfarin rúm átta ár. Stuðningsmenn Vefþjóðviljans standa undir öllum kostnaði við útgáfuna og kynningu á henni með frjálsum framlögum.