Miðvikudagur 31. ágúst 2005

243. tbl. 9. árg.

Ígær kynnti umhverfisráðherra nýjar reglur um rjúpnaveiðar. Veiðar hafa verið bannaðar undanfarin tvö ár að ráðum sérfræðinga Náttúrfræðistofnunar sem töldu stofninn í hættu vegna ofveiði. Á meðan veiðibanninu hefur staðið er talið að rjúpnastofninn hafi þrefaldast að stærð. Vafalítið á veiðibannið sinn þátt í því en náttúrulegar sveiflur í rjúpnastofninum eru einnig miklar.

Reglurnar sem giltu fyrir veiðibannið voru mun rýmri. Það er að segja fyrir veiðimenn en ekki bráðina. Auk þess að stytta veiðitímann um 30% frá því sem áður var og bæta við fleiri takmarkandi þáttum á veiðarnar er nú einnig bætt við sölubanni.

Ekki er gott að segja hvaða áhrif þessar nýju reglur munu hafa. Við fyrstu sýn mætti ætla að veiðimönnum mundi fjölga nokkuð þegar ekki verður lengur hægt að kaupa vinsælan jólamat í matvöruverslunum. Einnig er viðbúið að verslunin færist að hluta af matvörumarkaði á svarta markaðinn. Það getur vart verið lausn til frambúðar að menn brjóti lög ef þeir kaupa eða selja löglega veidda rjúpu í jólamatinn.

Þessi skipan mála virðist því ekki varanleg lausn. Hún hefur öll einkenni þess að það sem enginn á hirðir enginn um. Það sem rjúpnastofninn þarfnast er að nýtingarrétturinn komist í varanlega og seljanlega einkaeign. Þannig er best tryggt að nýtingin sé svo hófleg að ekki gangi á verðmæti veiðiréttarins.

Vandinn við stjórn á rjúpnaveiðum mundi horfa öðruvísi við ef ekki væru stór landsvæði í eigu ríkis og sveitarfélaga. Gera má ráð fyrir að ef land væri að mestu leyti í einkaeign gætu landeigendur stýrt veiðunum með sölu veiðileyfa. Landeigendur á stóru svæði gætu þá tekið sig saman um að selja ákveðin fjölda veiðileyfa sem gæfi þeim tekjur án þess að ganga um of á veiðistofninn. Þeir hefðu augljósan hag af því að stilla veiðunum í hóf til að geta selt slík leyfi áfram.

Önnur leið til að skilgreina eignarrétt á veiðirétti á rjúpunni gæti falist í því að úthluta kvóta til þeirra veiðimanna sem stundað hafa veiðar undanfarin ár. Þessir 5.000 veiðimenn fengju þá til dæmis rétt til að veiða 4 rjúpur fyrir hvert þeirra 5 ára undangenginna ára sem þeir hafa stundað veiðina. Þessi leið er flóknari en á henni eru ýmsar tæknilegar útfærslur eins og að senda veiðiréttarhöfum innsigli sem þeir þyrftu að setja á rjúpuna um leið og hún lægi í valnum.

Hugtakið „þjóðareign“ hefur verið mikið notað í umræðum um nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi. Hugtakið er þó alveg merkingarlaust í lagalegum skilningi nema að menn séu einfaldlega að búa til hljómfagurt hugtak yfir ríkiseign. Segja má að rjúpan sé nú orðin kennslubókardæmi um hvernig fer á endanum þegar náttúruauðlindir eru í „þjóðareign“. Á endanum verður slík þjóðareign ofnýtt. Komi ríkið í veg fyrir auðlindin sé algerlega þurrausin er það yfirleitt með nýtingarbanni eða reglum sem vonlítið er að menn fari eftir.