Fimmtudagur 1. september 2005

244. tbl. 9. árg.

Ívikunni komst siðanefnd blaðamanna að niðurstöðu í tveimur málum sem beint hafði verið til hennar vegna vinnubragða á einu dagblaðanna. Niðurstaða nefndarinnar varð sú, að í báðum málunum hafði blaðið brotið á kærendum, í annað skiptið með alvarlegum hætti en í hitt með ámælisverðum hætti, eins og slík brot eru flokkuð. Og eins og venjulega, eftir að slík niðurstaða siðanefndar liggur fyrir, þá gerist ekki neitt. Nú vill Vefþjóðviljinn taka fram, að blaðið hefur ekki lagst sérstaklega yfir þau mál sem þarna var beint til nefndarinnar og ekki myndað sér alvarlega skoðun á niðurstöðum nefndarinnar. En viðbragðaleysi fjölmiðlamanna við niðurstöðum siðanefndar er dæmigert fyrir margt hjá þeirri stétt, þegar það er borið við viðbrögð þeirra þegar slíkum álitum er beint til annarra en fjölmiðlamanna.

Vissulega var sagt frá niðurstöðu nefndarinnar í fréttum. En svo kom ekkert meira. Hvað meira hefði eiginlega átt að koma, spyr kannski einhver. Ja menn geta ímyndað sér hvernig málinu hefði verið fylgt eftir, ef það hefði beinst gegn einhverjum öðrum en fjölmiðlamönnum. Ekki voru ritstjórar og eigendur fjölmiðilsins eltir uppi og spurðir hvort „enginn eigi að sæta ábyrgð“ vegna niðurstöðunnar, svo dæmi sé tekið. Ekki voru blaðamennirnir sem í hlut áttu fundnir og spurðir hvort þeir „gætu setið áfram“ eftir að niðurstaðan lá fyrir. Þeir voru ekki nafngreindir hvað þá meira. Enginn fræðimaður var fundinn til að vitna um að „erlendis myndu menn segja af sér“, svo vinsæll frasi sé notaður. Nei nú eiga fjölmiðlamenn í hlut og þá dettur engum fjölmiðlamanni í hug að ganga fram eins og þeim er tamt ef að aðrar stéttir fá á sig neikvæð álit.

Nú er Vefþjóðviljinn ekki að hafa neina sérstaka skoðun á réttmæti álits siðanefndarinnar, enda er sú spurning aukaatriði hér. Það sem er áhugavert er það að í þessum málum einum virðast fjölmiðlamenn ekki með þá sífelldu skoðun sína að það sé um að gera að einhver „sæti ábyrgð“. Ef einhver fær neikvæðar athugasemdir hjá dómara, kærunefnd, úrskurðarnefnd, umboðsmanni og að ekki sé talað um erlendum nefndum eða stofnunum, þá þykir fréttamönnum það alltaf stórmál. Ef siðanefnd þykir íslenskur fjölmiðill hafa „brotið alvarlega af sér“, þá er það hins vegar ekkert mál. Nú getur siðanefndin auðvitað hvort sem er haft rétt og rangt fyrir sér, en það sem menn gleyma svo oft er að sú staðreynd á jafnt við um allar hinar nefndirnar og „eftirlitsaðilana“. Öll þessi álit eru einfaldlega álit einhvers fólks, fólks sem hefur sínar persónulegu skoðanir á mönnum og málefnum, sumt hvert kannski með verulegan áhuga á tilteknum málaflokki og mjög fúst til að gagnrýna allt sem þar verður fyrir. Það þarf ekki að vera neitt stórmál þó slíkt fólk sendi frá sér álit.

En þar til að fréttamenn taka fjölmiðlamenn sömu tökum og aðra, er þá mikil ástæða til að bera mikla virðingu fyrir sífelldum spurningum þeirra til allra annarra en fjölmiðlamanna hvort ekki þurfi nú „einhver að axla ábyrgð“?