H
Rykið er í Reykjavík er ekki frá útblæstri einkabíla heldur af götum bæjarins. |
ingað til hefur það verið talið augljóst að með því að draga úr notkun bíla sem brenna bensíni og gasolíu (diesel) mætti minnka loftmengun í Reykjavík verulega. Þetta hefur meðal annars verið notað sem röksemd fyrir því að fella niður vörugjöld og aðra skatta á svonefnd „vistvæn ökutæki“ sem í raun eru öll önnur ökutæki en þau sem brenna eingöngu bensíni og gasolíu. Má þar nefna bíla sem brenna metani eða ganga fyrir vetni eða rafmagni eða blöndu af jarðefnaeldsneyti og einhverjum hinna „vistvænu orkugjafa“.
Í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta Vegagerðar ríkisins er að finna fróðlega grein sem ber heitið „Svifryk“ eftir þær Ásdísi Guðmundsdóttur hjá Vegagerðinni og Bryndísi Skúladóttur hjá Iðntæknistofnun. Þar er sagt frá mælingum sem gerðar hafa verið á svifryki við Miklatorg í Reykjavík á árunum 1995 til 2002, að árinu 2000 undanskildu en þá var mælibúnaður bilaður. Með þessum mælingum var ekki aðeins mældur styrkur svifryks heldur var rykið efnagreint svo komast mætti að uppruna þess. Greinin er byggð á rannsóknarskýrslu sem lesa má á vef Vegargerðarinnar.
Í stuttu máli sagt er niðurstaðan sú að aðeins 7% svifryksins er ættað úr púströrum farartækja. Svifryk myndi með öðrum orðum minnka að hámarki um 7% ef „vistvæn ökutæki“ leystu bensín- og díselbíla af hólmi. Það er einnig athyglisvert að þrátt fyrir að bílum hafi fjölgað verulega á árunum 1995 til 2002 og umferð aukist um Miklatorg er ekki hægt að greina neina aukningu í svifryksmengun við gatnamótin á Miklatorgi. Þvert á móti er síðasta heila árið sem mælingarnar ná til, árið 2001, það ár sem minnst svifryk mælist frá upphafi mælinga. Öll árin er ársmæling langt undir viðmiðunarmörkum sem taka gildi árið 2005. Hér um um að ræða ryk sem er undir 10mm í þvermál og gjarnan táknað PM10. Inn í þessari mælingu er einnig fínni gerð ryks (PM2,5) en þar er hlutfall sóts hærra. Fínasti hluti ryksins er talinn sá sem helst getur valdið mönnum heilsutjóni. Samanlagt er útkoman hins vegar sú að útblástur frá bílum er merkilega lítill hluti svifryksins.
Ný viðmiðunarmörk um svifryksmagn taka gildi árið 2010. Þau mörk eru helmingi lægri en mörk sem taka gildi árið 2005. Mælingar fyrir árið 2001 eru engu að síður vel undir þeim mörkum sem taka gildi árið 2010. Árin 1995 til 1999 voru hins vegar 20 til 45% yfir þeim mörkum. Ef menn gefa sér að mælingar fyrir árin 1995 til 1999 gefi einhverja mynd af því hvernig ástandið verður árið 2010 (þótt þróunin síðustu árin virðist fremur í hina áttina) þurfa menn að velta því fyrir sér til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að draga úr rykinu.
Eins og áður sagði dugar skammt að skipta um orkugjafa því við það minnkar rykið í mesta lagi um 7%. Þótt mönnum tækist að skipta út helmingi bílaflotans fram til ársins 2010 fyrir „vistvæn ökutæki“ myndi ryk í besta falli minnka um 3,5%. Eins og sjá má á skífuritinu hér að ofan er helsta uppspretta ryksins sjálft malbikið en samkvæmt mælingunum er 55% ryksins uppspænt malbik. Jarðvegur og selta eiga sök á 36%. Vafalítið er mikið af þessu ryki að þyrlast upp aftur og aftur. Mikið af því safnast út við vegarkanta undan fólksbílum og þegar stærri faratæki eins og strætó fara um rótast rykið aftur upp. Það er því spurning hvort ekki mætti ná miklum árangri í baráttunni við rykið með því einfaldlega að halda götunum við og þrífa þær. Hið opinbera sér um rekstur og viðhald flestra gatna á landinu. Til að fjármagna þennan rekstur innheimtir það gjöld af bíleigendum sem eru langt umfram það sem reksturinn kostar. Það er því nokkur afgangur fyrir vatni og sápu.
Nú þegar það liggur fyrir að göturnar sjálfar, en ekki bílarnir, eru meginuppspretta svifryksins er einkennilegt að menn beini ekki spjótum sínum að eigendum uppsprettunnar, ríkinu og sveitarfélögunum og krefjist þess að göturnar séu hreinar og í lagi. Menn geta rétt ímyndað sér hvort ekki heyrðist hljóð úr horni ef það væri einkaaðili sem bæri ábyrgð 55% af mengun af þessu tagi. Þá liði ekki á löngu þar til hann fengi yfir sig ellefu eftirlitsstofnanir, tólf tilskipanir frá ESB, þrettán þingsályktanir og fjórtán tegundir af faglegu umhverfismati.