Laugardagur 28. febrúar 2004

59. tbl. 8. árg.

F orseta Bandaríkjanna til ráðgjafar í efnahagsmálum er sérstakt hagfræðingaráð sem nú er undir forystu prófessors N. Gregory Mankiw, höfundar einnar vinsælustu kennslubókar í hagfræði nú um stundir. Hagfræðingaráðið setur árlega saman skýrslu sem fylgir hagfræðiskýrslu forsetans og var sú nýjasta lögð fram fyrr í þessum mánuði. Í skýrslu hagfræðingaráðsins er fróðlegur kafli um frjáls viðskipti, sem ber þess merki að kennari í hagfræði hafi komið að skýrslugerðinni. Í þessum kafla er bent á að ávinningurinn af frjálsum viðskiptum milli landa er oft misskilinn. Umræður um ávinninginn af viðskiptunum einskorðist oft og tíðum við störf sem verði til í útflutningsgreinum, en taki ekki tillit til ávinningsins af innflutningnum fyrir neytendur og framleiðendur. Störfin sem verði til í útflutningsgreinunum séu mikilvæg, en ávinningurinn sé mun meiri. Frjáls milliríkjaviðskipti séu ekki aðeins jákvæð af því að þau geri ríkjum kleift að flytja út, heldur líka vegna þess að þau geri innflutning mögulegan. Það að selja vörur og þjónustu til annarra landa sé gagnlegt vegna þess að salan geri kaup á vörum og þjónustu erlendis frá möguleg. Þetta sé sambærilegt við það að fólk hafi gagn af því að vinna til að afla tekna til að kaupa vörur og þjónustu. Hægt sé að líta svo á að fólk „flytji út“ afrakstur vinnu sinnar og fái í staðinn tekjur sem það geti notað til að kaupa, eða „flytja inn“, vörur og þjónustu sem annað fólk framleiðir.

Útflutningur er ekki jákvæður í sjálfum sér og þess vegna er til að mynda lítið vit í að niðurgreiða útflutning með beinum eða óbeinum hætti, eins og stundum er þó gert. Það verður enginn ríkur á því að gefa framleiðslu sína eða greiða með henni. En útflutningur er jákvæður vegna þess að með honum fæst fé til að greiða fyrir vörur sem kosta minna erlendis en heima fyrir. Sumir hafa gagnrýnt þetta og telja að með því tapist störf heima fyrir. Staðreyndin er þó sú, eins og bent er á í skýrslu hagfræðingaráðsins, að innflutningur gerir ríkjum mögulegt að lækka kostnað og nýta það sem sparast til að framleiða annað. Vegna þessa hagræðis er ábatasamt að viðskipti milli ríkja séu sem frjálsust.

Í skýrslunni eru nefndar tölur til stuðnings þessari staðhæfingu. Vísað er í rannsókn sem náði til 133 landa og tæprar hálfrar aldar, eða frá 1950 til 1998. Rannsóknin leiddi í ljós að tekjur á mann uxu 0,5% hraðar á ári eftir að ríkin afléttu hömlum af milliríkjaviðskiptum en á meðan hömlurnar voru fyrir hendi. Áhrifin hafa verið sterkari í seinni tíð en á árum áður og á síðasta áratug óx vaxtarhraðinn um 2,5% á ári eftir að opnað var fyrir milliríkjaviðskipti.