Fimmtudagur 26. febrúar 2004

57. tbl. 8. árg.
Til Húsavíkur bílar bruna
bjarta daga og hljóðlát kvöld.
Í Laxárdal er ljúft að una 
er lýsir sól hin grænu tjöld.

Héruð þessi hæfa tröllum
hömrum gyrt í djúpan sæ.
Fiskur vakir í fljótum öllum
og framsóknarmaður á hverjum bæ!
 – Helgi Sæmundsson, Við Skjálfanda.

Svona orti Helgi Sæm. árið 1959. Ætli menn segi sömu sögu, nú fjörutíu og fimm árum síðar þegar umhverfisráðherra Framsóknarflokksins er – að sögn Steingríms J. Sigfússonar, hlutlauss aðila – að endurvekja Laxárdeiluna. Jú ábyggilega. Hvað sem mönnum finnst um hið nýja frumvarp umhverfisráðherrans þá er næstum útilokað að það verði til þess að þingeyskir framsóknarmenn taki sönsum, því það munu þeir aldrei gera. Og fyrir norðaustan virðast menn auk þess sérstaklega útsettir fyrir framsóknarmennsku þessi misserin, að minnsta kosti tókst framsóknarmönnum að telja Austfirðingum trú um að Valgerður Sverrisdóttir hefði ein dregið til landsins bæði virkjun og álver. Reyndar mun helst hafa mátt skilja málflutning framsóknarmanna í þessu kjördæmi svo, að ríkisstjórnin hefði skipt verkum með sér þannig að allt gott kæmi frá Framsóknarflokknum en allt illt frá svokölluðum samstarfsflokki hans. Þetta er það sem á fræðimáli hefur stundum verið nefnt framsóknarheilindi.

Ekki þar fyrir, auðvitað stendur hverjum stjórnmálaflokki næst að fjalla um eigið ágæti og flestum þeirra þykir minna skipta að benda á hvað hinir kunna að hafa við sig. Sá háttur forystu Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum að taka iðulega fram í kappræðum að Framsóknarflokkurinn ætti ekki síður heiður af því sem vel hefði tekist og ætti skilið „góða kosningu“, hann er kannski ekki vísasta leiðin að árangri. En sjálfstæðismenn geta þó huggað sig við það, að framsóknarmenn launuðu þeim vingjarnlegheitin, þegar eftir kosningar. Og allt í lagi með það, slíku ræður vitanlega hver fyrir sig.

En já, Helgi Sæm., það var vitnað í þann þjóðkunna mann hérna áðan. Hann var ritstjóri Alþýðublaðsins um nokkurra ára skeið og skrifaði þar og annars staðar eins og úlfur. En kunnastur var hann sennilega sem hagyrðingur í útvarpi og prýðilegt skáld. Fyrir tæplega 70 árum orti hann svo:

Ég átti viðkvæmar vonir
sem vermdust hjartans glóð.
Til himins stigu í hljóðri bæn
mín helgu draumaljóð.
Og loks er kominn sá lángþráði dagur
er legg ég á höf með saung á vörum
og stefni í fjarskann – einn í förum.