Miðvikudagur 25. febrúar 2004

56. tbl. 8. árg.

H agfræðingurinn Thomas Sowell ritaði í gær grein í The Wall Street Journal þar sem hann fjallaði um nokkur grundvallaratriði hagfræðinnar. Sowell gaf þá skýringu á skrifum sínum að býsna margt í því sem hagfræðingar telja almennt einföld sannindi – eiginlega of einföld til að þörf sé á að ræða þau – geti vafist fyrir þeim sem ekki hafi lagt fyrir sig hagfræði. Þetta er eðlilegt, því hagfræði getur verið flókin, rétt eins og aðrar fræðigreinar. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt þó að það vefjist fyrir hinum almenna manni að finna rök fyrir því að frjáls viðskipti eru hagkvæm eða að lágir skattar eru hagkvæmari en háir skattar, svo dæmi séu tekin. Þetta kann að vera ámóta einfalt eða flókið og eðlisfræðin á bak við þá staðreynd að hægt er að lyfta flugvélum af jörðunni, og fáir gera ráð fyrir að fólk geti almennt útskýrt það svo vel sé.

Sowell er einn þeirra hagfræðinga sem hefur verið iðinn við að útskýra hagfræði þannig að hún verði skiljanleg fleirum en innvígðum og er nýlega endurútgefin bók hans, Basic Economics: A Citizens Guide to the Economy, Revised and Expanded, gott dæmi þar um. Fyrrnefnd grein er annað ágætt dæmi og þar minnist hann meðal annars á algengan misskilning um skattalækkanir Ronalds Reagan á níunda áratugnum. Sowell bendir á að margir haldi að þessar skattalækkanir hafi valdið fjárlagahalla, en staðreyndin sé sú að ríkið hafi á þessum árum haft meiri skatttekjur en nokkru sinni fyrr. Hallareksturinn hafi hins vegar orðið vegna þess að það sé sama hversu miklar skatttekjurnar verði, þingið muni alltaf geta eytt umfram tekjur. Staðreyndin sé sú að skattalækkunin hafi verið lækkun á skatthlutfalli sem hafi þýtt auknar tekjur. Sá misskilningur að hærri skatthlutföll sé það sama og hærri skatttekjur verði stundum til þess að stjórnmálamenn telji hærri skatthlutföll vera svarið við fjárlagavanda hins opinbera, jafnvel þó að hærri skatthlutföll geti orðið til þess að hrekja burt viðskipti og þar með að minnka skatttekjur.

G uðni Ágústsson landbúnaðarráðherra setti í gær fram þá skýru kröfu af sinni hálfu að íslenskar fjölskyldur tækju að framleiða mjólk, honum til drykkjar. Vefþjóðviljinn vill af þessu tilefni taka fram að hann hefur ekkert við þessa kröfu Guðna að athuga enda telur blaðið æskilegt að hver fái þá mjólk sem hann helst kýs. Hitt er annað mál, að blaðið leggur þunga áherslu á að áfram verði í boði mjólk úr kúm, fyrir þá sem það kjósa heldur.