Miðvikudagur 24. nóvember 1999

328. tbl. 3. árg.

Það er víðar en hér á landi sem háskólastúdentar eru ósáttir við að greiða félagsgjöld til pólítískra samtaka á borð við Stúdentaráð Háskóla Íslands. Í nóvemberútgáfu tímaritsins Reason er sagt frá því að á síðasta ári vann laganemi við University of Wisconsin mál fyrir áfrýjunarrétti þar sem skyldugreiðsla hans til pólítískra félaga í skólanum var talin brjóta gegn fyrstu stjórnarskrárviðbótinni. Dómstóllinn taldi einnig að þessar skyldugreiðslur væru ekki nauðsynlegar fyrir skólagöngu nemandans. Málið verður tekið fyrir í hæstarétti Bandaríkjanna fyrir lok næsta árs. Vinni stúdentinn málið fyrir hæstarétti verða ríkisskólar að fella niður skyldugreiðslur til einstakra félaga. Skólarnir geta þó ef til vill leitað í smiðju Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra uppi á Íslandi en hann þróaði sérstaka bakdyraaðferð til að tryggja skylduaðild að Stúdentaráði Háskóla Íslands eftir að umboðsmaður Alþingis hafði bent á að skyldugreiðslur til SHÍ skorti lagastoð. Ráðherrann lætur stúdenta greiða skólanum gjald og skólinn gerir „samning“ við SHÍ um að taka við fénu!

Sumir óttast mjög að genabreytt matvæli kunni að verða hættuleg heilsu manna. Aðrir telja að þau séu gagnleg viðbót við fæðuflóru mannsins og geti hjálpað í baráttunni við hungur og bætiefnaskort. Einn hinna síðarnefndu er Julian Morris forstöðumaður umhverfisdeildar The Institute of Economic Affairs sem ritaði grein um málið í Financial Times í gær. Hann álítur rangt af umhverfisverndarsinnum að standa gegn frjálsum viðskiptum með genabreyttar vörur.

Morris nefnir sem dæmi að áætlað sé að í heiminum þjáist 400 milljónir manna af A-vítamínskorti. Þetta séu mest börn í fátækum löndum og að skorturinn geti leitt til námserfiðleika og blindu. Hann segir að þennan vítamínskort megi bæta með notkun nýrrar gerðar genabreyttra hrísgrjóna, en mótmæli umhverfisverndarsinna gætu komið í veg fyrir að af því verði. Það hlýtur að þurfa býsna góð rök til að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem bætt geta heilsu og jafnvel komið í veg fyrir hungur milljóna manna. Morris er þeirrar skoðunar að engin slík rök hafi komið fram varðandi genabreytt matvæli.