Þriðjudagur 23. nóvember 1999

327. tbl. 3. árg.

Í borgarkerfinu er þessa dagana verið að leggja á ráðin um að kafa dýpra í vasa skattgreiðenda. Þetta er svo sem út af fyrir sig engin frétt því slíkt ráðabrugg á sér stað alla daga hjá hinu opinbera. Hér skulu þó nefnd þrjú dæmi um stórar framkvæmdir sem borgarstjórn virðist ætla sér að neyða borgarbúa til að greiða fyrir. Í fyrsta lagi má nefna að til stendur að byggja knattspyrnuhús í Grafarvogi. Já, það á að byggja yfir heilan knattspyrnuvöll og skattgreiðendur munu verða látnir greiða um 500 milljónir fyrir dýrðina.

Í annan stað eru uppi áform um að láta gera 50 metra yfirbyggða sundlaug í Laugardal og á hún einnig að kosta að minnsta kosti 500 milljónir króna. Að vísu væri hægt að gera hana fyrir um helming þessarar upphæðar, en það mun ekki þykja nógu glæsilegt, þannig að borgarbúar verða af mismuninum. Í þriðja lagi verður líklega farið út í að byggja fjölnota íþróttahús í Laugardal, en ekki hefur enn verið slegið á tölu í því sambandi.

Hugmyndin er að þetta verði allt framkvæmt með svokölluðu alútboði, en það þýðir að einhver tekur að sér að reisa mannvirkin og reka þau, en borgin skuldbindur sig í staðinn til að leigja þau af honum í tiltekinn árafjölda. Borgin ábyrgist því allan kostnað við verkin, en kostnaðurinn kemur ekki fram með sama hætti í reikningum hennar og ef hún byggði sjálf. Í efnahagsreikningnum sést ekki að skuldirnar hafi aukist, þó það sé í raun það sem gerst hefur.

Sjálfsagt sannfæra einhverjir borgarfulltrúar sjálfa sig um að með þessu sé óskaplega nútímalega að verki staðið og þess vegna sé síður hægt að gagnrýna dýrar framkvæmdirnar. Svo er þó alls ekki. Hugsanlegt er að framkvæmdirnar verði eitthvað ódýrari með þessum hætti en ef borgin byggir sjálf, en meginatriðið er að borgin er að fara út í rándýrar og ónauðsynlegar framkvæmdir. Borgin er í dag stórskuldug og borgarbúar greiða háa skatta. Það er skylda borgarfulltrúa að benda á þær staðreyndir og hafna öllum nýjum framkvæmdum af þessu tagi.