Mánudagur 22. nóvember 1999

326. tbl. 3. árg.

G. Pétur Matthíasson deildarstjóri innheimtudeildar Ríkisútvarpsins upplýsir það í grein í DV á föstudaginn að það sé hluti af launakjörum starfsmanna RÚV að fá lögboðin afnotagjöld Ríkisútvarpsins felld niður. Það sé jafnvel kveðið á um það í kjarasamningum starfsmanna við RÚV. Skattayfirvöld hafa farið hamförum undanfarin ár vegna fríðinda sem launamenn njóta hjá vinnuveitendum sínum svo sem vegna afnota af bifreiðum og símum, greiðslu matarkostnaðar, jóla- og afmælisgjafa og kaupréttar á hlutabréfum svo fátt eitt sé nefnt. Það hlýtur að blasa við að þau taki þessi fríðindi starfsmanna RÚV til skoðunar nú þegar fyrir liggur játning eins starfsmanns um að fríðindin séu hluti af launakjörum.

Í bókinni Alþýðubandalagið – átakasaga eftir Óskar Guðmundsson (sem var lengi virkur félagi í Alþýðubandalaginu) er undirbúningi fyrir fyrsta landsfund Alþýðubandalagsins árið 1966 lýst og einnig landsfundinum sjálfum. Á þessum fundum voru reifuð ýmis sjónarmið um hina nýstofnuðu hreyfingu og var tekist nokkuð á. Lýsing Óskars á þessu er furðu kunnugleg, þar sem þrasið um stofnun Samfylkingarinnar að undanförnu er hrein eftiröpun á þessu þjarki um það hvort Alþýðubandalagið ætti að vera samfylking eða flokkur, sjálfstæð stjórnmálasamtök eða regnhlífarsamtök, með félög eða félaga, hvort félagar úr gömlu flokkunum Sósíalistaflokki, Þjóðvarnarflokki og Málfundafélagi jafnaðarmanna gætu orðið félagar sjálfkrafa. Ýmsir félagar úr Sósíalistaflokknum gengu úr Alþýðubandalaginu þótt þeir hefðu aldrei gengið í það. Vinstri menn virðast ekkert hafa lært af þessum þrætum fyrir 30 árum. Félagsþroski félagshyggjufólks virðist jafntakmarkaður nú og þá. Segir svo frá lokum landsfundarins: „…ekki tekin afstaða til þess hvort AB yrði sjálfstæður stjórnmálaflokkur. Páll Bergþórsson lýsti andstöðu sinni við að ekki væri tekið fram að AB væru samfylkingarsamtök en ekki flokkur og voru fleiri óánægðir með að ekki yrði gert út um þetta grundvallarmál.“!

Þess má til gamans geta að fyrrverandi formaður Sósíalistaflokksins, Einar Olgeirsson, fékk minna fylgi í miðstjórnarkjöri á þessum stofnlandsfundi Alþýðubandalagsins en maður sem síðar varð formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson. Á þessum sama fundi var Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins, kjörinn formaður Alþýðubandalagsins, en nokkrum árum síðar klauf hann sig út úr flokknum og stofnaði nýjan flokk. Og núna, þrjátíu árum síðar, er talað um að mannvalið hér heima sé svo rýrt, að nauðsynlegt sé að kalla þennan sama Jón Baldvin heim frá Washington til að leiða nýjan flokk „sameinaðra vinstri manna“.