Fimmtudagur 25. nóvember 1999

329. tbl. 3. árg.

Morgunblaðið sagði frá því í gær að Alþjóðasamband stærðfræðinga ákvað fyrir sjö árum að árið 2000 verði „alþjóðlegt stærðfræðiár“. Því miður, þá þegar höfðu aðstandendur Vefþjóðviljans ákveðið að árið 2000 yrði alþjóðlegt ár Vefþjóðviljans.

Gamanlaust þá er ástæða til að gæta sín í hvert skipti sem einhverjir fyrirskipa að tiltekið ár skuli aðrir sérstaklega sinna tilteknum málaflokki. Er þá yfirleitt stutt í að sérstakra útgjalda verði krafist af skattgreiðendum, svona í tilefni af hinu alþjóðlega ári, veikgeðja stjórnmálamenn hamast við að breyta lögum í þágu þeirra sem vinna að málefninu – og þykir meira að segja áríðandi að breytingin náist í gegn á hinu merka ári. Undanfarna ellefu mánuði hefur ekki verið árið 1999 eins og margir höfðu búist við, heldur „ár aldraðra“ og þegar því lýkur tekur „menningarárið“ við – og mun það verða skattgreiðendum dýrt. Vefþjóðviljinn veit ekki hvort stærðfræðingar hyggjast sækja fé til sinna mála vegna „stærðfræðiársins“ en honum kæmi ekki á óvart þó stjórnvöld verði linnulítið minnt á mikilvægi stærðfræðináms.

Þó Vefþjóðviljinn sé almennt þreyttur á öllum þessum mörkuðu árum vill hann leyfa sér að koma með hugmynd handa stjórnmálamönnum landsins: Að einu sinni verði efnt til árs skattgreiðenda, að eitt ár mannskynssögunnar verði ekki efnt til nokkurra nýrra opinberra útgjalda hverju nafni sem nefnast. Svo geta menn byrjað að eyða aftur. Geta menn haldið í sér í 365 daga?

Þjófar hafa að undanförnu látið greipar sópa um marga bíla á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa brotist inn í þá með ýmsum aðferðum. Lögreglan hefur látið hafa eftir sér að þessir þjófnaðir tengist oftar en ekki fjármögnun á fíkniefnaneyslu. Þessi sama lögregla hefur að undanförnu handtekið marga meinta fíkniefnasala og fréttir hermdu að í kjölfarið hefði verð á fíkniefnum hækkað verulega. Enginn virðist þó efast um að framboð á fíkniefnum aukist fljótlega á ný enda auglýsir lögreglan það í hverjum fréttatíma að starfi fíkniefnasalan fylgi glæsibifreið, einbýlishús og almennt ríkmannlegur lífsmáti. Ef það er rétt sem lögreglan segir að fíkniefnaneytendur fjármagni neyslu sína með innbrotum í bíla og heimili blasir við að þeir þurfa að fremja fleiri afbrot til að fjármagna neysluna þegar verð á fíkniefnum hækkar. Til dæmis þegar löggan lætur til skarar skríða í „stóru fíkniefnamáli“.