Föstudagur 26. nóvember 1999

330. tbl. 3. árg.

Á laugardaginn sagði Morgunblaðið frá því að Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra væri stödd í Bandaríkjunum að gefa bandarískum lögregluyfirvöldum góð ráð og stappa í þau stálinu í baráttunni við sameiginlega óvini þeirra. Sagði blaðið frá fundi Sólveigar með „Thomas Umberg, aðstoðarframkvæmdastjóra stofnunar sem heyrir undir forsetaskrifstofu Bandaríkjanna og framfylgir stefnu forsetans í fíkniefnamálum.“

Stefna Bandaríkjaforseta í fíkniefnamálum, æ hver var hún aftur? Reykja, en draga ekki að sér, var það ekki? Og þessu sinnir núna sérstök stofnun. Heill her manns situr þarna púandi allan daginn. Svo breytist þetta allt ef George Bush verður kosinn forseti. Þá mun stofnunin harðneita að gefa upp hvort hún geri nokkuð yfirleitt.

Í kjallaragrein í DV í gær hvatti Hafdís Björg Hjálmarsdóttir umhverfishagfræðingur til þess að „náttúran verði tekin með í reikninginn“ ef við „eigum að halda áfram að lifa hér á jörðinni“. Hafdís hvetur hins vegar um leið til þess að dregið verði úr hagfræðilegum áherslum.
Helstu umhverfisvandamál nútímans eiga það sameiginlegt að umhverfið hefur ekki verið tekið með í reikninginn. Ástæða þess að umhverfið hefur ekki verið tekið með í reikninginn er að láð, lögur og loft er oft einskis manns eign eða almenningur. Það sem enginn á  hefur ekkert verð og er því ekki tekið með í reikninginn. Hinir nýuppgötvuðu Eyjabakkar eru ágætt dæmi um þetta. Verstu umhverfisvandamálin eru í löndum þar sem lítil hefð er fyrir eignarrétti. Ráðstjórnarríki Austur-Evrópu eru sláandi dæmi. Mengun hafsins annað. Ofbeit á almenningum einnig þótt þar hafi ríkið jafnframt styrkt beitina með fjárframlögum til sauðfjárræktar.

Það er því rétt sem Hafdís segir að taka beri umhverfið með í reikninginn en eina leiðin til þess er að skilgreina einkaeignarrétt á gæðum náttúrunnar sem tryggir skástu nýtingu þeirra. Auðvelt er að koma landi í einkaeign. Gæðum hafsins þarf að koma í einkaeign með ráðum eins og íslenska kvótakerfinu. Loftið er erfiðast viðfangs en mengunarkvótar eru víða reyndir með ágætum árangri.  Hafdís nefnir að „við“ útrýmum daglega 10 til 50 dýra- og plöntutegundum“ og telur það til marks um galla markaðskerfisins. Útrýmingin á sér þó aðallega stað í löndum þar sem eignarréttur og frjáls viðskipti eiga lítt upp á pallborðið, þ.e.a.s. þar sem hagfræðileg sjónarmið eiga erfitt uppdráttar. Þær skepnur og plöntur með mest eru nýttar í markaðskerfi Vesturlanda eru hins vegar ekki í neinni útrýmingarhættu. Hafa menn heyrt að hænur, kýr, hveiti og vínviður sem ganga kaupum og sölum á hverjum degi séu í útrýmingarhættu?