Laugardagur 27. nóvember 1999

331. tbl. 3. árg.

Þingmenn eru alltaf að reyna að gleðja kjósendur sína. Mikill tími þeirra fer í að vinna að hagsmunamálum einstakra þrýstihópa, misjafnlega háværra. Þannig tekst þeim að styrkja stöðu sína þar sem fæst mál vekja mikla eftirtekt skattgreiðenda, sem þó fá að borga fyrir dugnað þingmannanna, en þeir hagsmunahópar sem njóta, telja þingmanninn framsýnan og snjallan og vilja veg hans sem mestan.

Ísólfur Gylfi Pálmason er þingmaður Framsóknarflokksins af Suðurlandi og hefur nú lagt til „að skipaður verði starfshópur sem fái það hlutverk að gera tillögur um hvernig stjórnvöld geti stutt íslenska matreiðslumenn í þeirri viðleitni að auka útflutning á þekkingu þeirra og matargerðarlist…“. Verði þessi tillaga hans samþykkt er stutt í að ríkið veiti fé til félags kokka og styrki félagsmenn til að taka þátt í erlendri keppni kokka. Ríkisútgjöld aukast um örfáar milljónir, skattgreiðendur taka varla eftir því en kokkar verða hæstánægðir með velvildarmann sinn, Ísólf Gylfa Pálmason.

Vefþjóðviljinn er ekki á móti íslenskum kokkum og sér ekkert að því að þeir fari um allan heim og eldi gómsæta íslenska rétti, sjálfum sér til verðskuldaðs sóma. Það breytir þó ekki því, að hann telur að halda eigi skattgreiðendum utan við þær frægðarferðir. Fjárlögin eru full af framlögum til hagsmunahópa – framlögum sem öll eru sögð borga sig „þegar til lengri tíma er litið“ – en einhverra hluta vegna er ríkið stórskuldugt.