Helgarsprokið 28. nóvember 1999

332. tbl. 3. árg.

Hagfræðingurinn Henry Hazlitt fæddist fyrir 105 árum, hinn 28. nóvember 1894. Hann ritaði lengi um efnahagsmál í blöð á borð við The Wall Street Journal,

Henry Stuart Hazlitt
Henry Stuart Hazlitt

The New York Times og Newsweek og ritaði auk þess fjölda bóka um hagfræði og fleira. Það er athyglisvert við feril Hazlitt að hann hlaut ekki formlega menntun í hagfræði. Hann þurfti að hverfa frá námi vegna fátæktar og varð að vinna fyrir sér og móður sinni. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að hann yrði vel menntaður hagfræðingur. Hafði hann djúpan skilning á efnahagsmálum en tókst jafnframt að fjalla um þau á máli sem fleiri en hagfræðingar skilja. Slíkt vefst oft fyrir fræðimönnum og stundum er texti þeirra reyndar með þeim hætti að engu er líkara en verra þyki að aðrir en innvígðir skilji hann.

Frægasta bók Hazlitt er bókin Economics in One Lesson og kom hún út árið 1949. Varð hún strax mjög vinsæl og 30 árum síðar var hún endurbætt og endurútgefin og er enn meðal aðgengilegustu og skýrustu rita hagfræðinnar. Í bókinni er aðaláherslan lögð á að hrekja ýmsar hagfræðilegar ranghugmyndir sem sífellt skjóta upp kollinum í opinberri umræðu, ekki síst fyrir áhrif frá John M. Keynes og þeim sem aðhyllast kenningar hans.

Bókin er innblásin af skrifum franska hagfræðingsins Frederic Bastiat, sérstaklega kaflinn um brotnu rúðuna, en í honum er verið að útskýra ákveðna grunnhugsun. Sá kafli birtist reyndar fyrst í Readers Digest í ágúst 1946, en var svo tekinn upp í bókinni. Í honum er bent á að líta þarf á óbeinar afleiðingar einhvers verknaðar en ekki aðeins beinar afleiðingar hans. Margir hagfræðingar gleyma þessu stundum þegar þeir eru að fjalla um efnahagsmál en eitt af því sem Hazlitt sagði að skildi á milli góðra og slæmra hagfræðinga er einmitt það, að góðir hagfræðingar líta ekki aðeins á beinar afleiðingar heldur einnig óbeinar, og ekki aðeins á afleiðingar fyrir einstakan hóp þjóðfélagsins heldur fyrir alla hópa. Hér á eftir fer frásögnin um brotnu rúðuna:

„Hugsum okkur, svo dæmi sé tekið, að ungur skemmdarvargur kasti grjóti í gegnum rúðu á bakaríi. Bakarinn hleypur ævareiður út en strákurinn er á bak og burt. Nokkur hópur fólks safnast saman og gónir á brotnu rúðuna og glerbrotin, sem dreifst hafa yfir brauðin og kökurnar. Eftir skamma stund fer fólkið út í heimspekilegar vangaveltur um verknaðinn, og nokkrir úr hópnum fara að ræða það sín á milli og við bakarann, að þetta sé nú ekki með öllu illt. Þeir fara að velta fyrir sér í smáatriðum hvernig þetta muni skapa atvinnu fyrir glergerðarmenn. Hversu mikið skyldi ný glerrúða kosta? 50.000 krónur? Það er dágóð summa. Þegar öllu er á botninn hvolft, hvað yrði um gleriðnaðinn ef engar rúður brotnuðu? Síðan heldur þetta auðvitað endalaust áfram. Glergerðarmaðurinn mun hafa 50.000 krónum meira til að eyða í aðra hluti, og framleiðendur þeirra hluta munu þá fá 50.000 krónur til að eyða í enn annað, og svo koll af kolli alveg út í hið óendanlega. Brotna rúðan mun halda áfram að skapa peninga og atvinnu meðal fleira og fleira fólks, og af öllu þessu gæti hópurinn dregið þá ályktun að litli spellvirkinn sem kastaði steininum hafi ekki unnið þjóðfélaginu ógagn, heldur gagn.

Lítum nú á málið frá annarri hlið. Fyrsta ályktun hópsins er rétt. Þessi litla skemmdarstarfsemi mun í fyrstu þýða aukin viðskipti fyrir einhvern glergerðarmann. Glergerðarmaðurinn verður engu leiðari þegar hann fréttir af atburðinum en útfararstjórinn þegar hann fréttir af dauðsfalli. En bakarinn tapar 50.000 krónum sem hann ætlaði sér að eyða í ný jakkaföt. Þar sem hann þarf að skipta um rúðu, verður hann af nýjum jakkafötum. Í stað þess að eiga bæði rúðu og 50.000 krónur, á hann nú bara rúðu. Eða, þar sem hann hafði einmitt ætlað sér að kaupa jakkafötin þennan sama eftirmiðdag, þá verður hann að sætta sig við að eiga einungis rúðu í stað þess að eiga auk þess fötin. Ef við lítum á hann sem hluta af þjóðfélagsheildinni, þá má segja að þjóðfélagið hafi tapað nýjum jakkafötum sem annars hefðu verið búin til. Þjóðfélagið er einfaldlega fátækara sem því nemur.

Aukin viðskipti glergerðarmannsins eru í stuttu máli aðeins tap skraddarans. Engin ný störf hafa „skapast“. Fólkið í hópnum hafði aðeins litið á tvo málsaðila, bakarannn og glergerðarmanninn, í stað þess að taka þriðja hugsanlega aðilann einnig með í reikninginn, það er að segja skraddarann. Það gleymdi honum vegna þess að hann mun nú ekki koma fram á sjónarsviðið. Hin nýja rúða mun blasa við því eftir einn eða tvo daga, en það mun aldrei sjá jakkafötin þar sem þau verða aldrei saumuð. Það kemur einungis auga á það sem blasir beint við.“