Mánudagur 28. júní 1999

179. tbl. 3. árg.

Háskóli Íslands er að byggja 8.000 fermetra húsnæði í Vatnsmýrinni í Reykjavík við einstakt fuglafriðland. Á byggingunni er einn stærsti gluggi landsins og þetta er stærsta bygging skólans. Nú mætti ætla að svona stór bygging á þessum stað fengi ýmsa sjálfskipaða umhverfisverndarsinna til að mótmæla kröftuglega og kæra framkvæmdina fram og til baka. Slagorðin í slíkri baráttu þekkja allir. „Náttúran á að njóta vafans.“ „Votlendi eytt.“  „Umhverfisslys.“ „Steinsteypumenningin allsráðandi.“ „Fuglarnir látnir víkja fyrir malbikinu.“ „Einstök náttúruperla eyðilögð.“ „Auðgildi ofar manngildi.“ „Umhverfismat.“ „Hverfalýðræði.“ Ekkert af þeim hefur þó heyrst. Það tengist því auðvitað ekki að í þetta sinn er verið að byggja náttúruvísindahús sem mun hýsa ýmsa þá sem líklegir voru til að fara af stað með mótmæli gegn þessu „umhverfisslysi“.

Nýlega voru reykingar algerlega bannaðar á lóðum fyrirtækja og stofnana. Mun þetta liður í svonefndu forvarnarstarfi og eiga að stuðla að bættri heilsu landans. Það má vel vera að aðstandendur þessa banns geri sér vonir um að færri reyki og að þær tekjur sem ríkið hefur af tóbakssölu minnki í kjölfar bannsins en það er þó ekki sjálfgefið. Annað sem ekki er síður óvissa um, er hvort heilsa landsmanna batnar við bannið. Nú þurfa reykingamenn að hlaupa út á götu eða einhvern annan víðavang fyrir utan lóðir þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá. Það er ekki sjálfgefið að þeir herðist allir af því að hlaupa léttklæddir út í íslenskt vetrarveður. En öfgafulla andstæðinga reykinga varðar víst ekkert um það.