Helgarsprokið 27. júní 1999

178. tbl. 3. árg.

Þrír ríkisbankar keyptu á dögunum stóran hlut af erlendum fjárfestum í ágætu erfðarannsóknafyrirtæki. Einn þessara banka fékk nokkra milljarða í ríkisaðstoð fyrir nokkrum árum og ekki er langt síðan annar ríkisbanki, Útvegsbankinn, riðaði til falls. Fleiri opinberir sjóðir hafa sent skattgreiðendum háa reikninga vegna fjárfestinga í alls kyns fyrirtækjum. Það er því nokkur hefð fyrir því hér á landi eins og annars staðar að ríkisbönkum verði á í messunni. Helgi Hjörvar borgarfulltrúi ritaði grein um þessi kaup í Morgunblaðið í vikunni þar sem hann furðar sig á auknum umsvifum ríkisins á ýmsum sviðum að undanförnu og vísar þá til þessara kaupa, ásamt kaupum Landssímans á ýmsum tölvufyrirtækjum, kaupa Íslenskra aðalverktaka á verktakafyrirtækjum og kaupa Landsbankans á VÍS. Þessi óvæntu sinnaskipti Helga eru ánægjuleg. Helgi vekur jafnframt athygli á því að á sama tíma og ríkisstjórnin leggur mikið kapp á að fá erlenda fjárfesta til landsins kaupa bankar á vegum þessarar sömu ríkisstjórnar erlenda fjárfesta út úr fyrrnefndu erfðarannsóknafyrirtæki.

Það voru þó ekki síður óvænt skrif  sem birtust í Frelsaranum á heimasíðu Heimdallar í vikunni en þar er Helga svarað og hann skammaður fyrir að gera athugasemdir við „skynsamlegar ákvarðanir“ ríkisbankanna eins og það er nefnt. Er helst á þessum skrifum Frelsarans að skilja að stjórnendur ríkisbankanna séu í sömu stöðu og stjórnendur venjulegra einkafyrirtækja. Þó hefur það verið helsta baráttumál Heimdallar í rúm 70 ár að benda fólki á þann meginmun sem felst í stjórnun einkafyrirtækja og ríkisfyrirtækja. Hefur sá málflutningur Heimdallar og fleiri skilað því að fólk hefur áttað sig á því að forsendur ríkisforstjóra og eigenda einkafyrirtækja til skynsamlegra ákvarðana eru gjörólíkar. Í stuttu máli: Menn fara betur með eigið fé en annarra. Ef um fjárfestingu einkabanka hefði verið að ræða væri ekki ástæða til athugasemda en eini íslenski einkabankinn tók ekki þátt í fjárfestingunni.
Svonefndur Innherji í viðskiptablaði Morgunblaðsins skrifar á svipuðum nótum og Frelsarinn og telur það af og frá að stjórnendur þriggja ríkisbanka geti gert mistök. Þau skrif koma svo sem ekki á óvart þegar önnur skrif Morgunblaðsins um þjóðfélagsmál eru höfð í huga. Blaðið tekur nú undantekningarlítið afstöðu með ríkisvaldinu gegn einkafyrirtækjum og skattgreiðendum. Helsta baráttumál blaðsins er að taka veiðiheimildir af einkafyrirtækjum og afhenda þær ríkinu og blaðið telur það sjálfsagt að hver fjögurra manna fjölskylda í landinu greiði 65 þúsund krónur til byggingar ríkistónlistarhúss og greiði svo fyrir rekstur þess til eilífðarnóns.

Vef-Þjóðviljinn ætlar sér ekki að leggja mat á það eins og Frelsarinn og Innherji hvort kaup ríkisins á hlutabréfunum hafi verið skynsamleg. Hins vegar verður það að teljast afar óæskilegt að ríkið auki umsvif sín og grípi inn í viðskipti með þessum hætti. Fjárfesting í fyrirtækjum af þessari tegund er mikil áhætta. Við það bætist svo að upplýsingar um þetta tiltekna fyrirtæki hafa verið af skornum skammti, ekki staðið öllum til boða og verið misvísandi. Ríkisbankarnir hafa þegar selt hluta af þeim bréfum sem þeir keyptu til „fagfjárfesta“. Fram til þessa hafa þó aðeins hlutabréfasjóðir á vegum bankanna sjálfra skýrt frá kaupum á bréfunum og enginn lífeyrissjóður hefur viðurkennt slík kaup enn sem komið er að minnsta kosti. Lífeyrissjóðunum er bannað að kaupa bréf í óskráðum erlendum félögum eins og þessu. Flestir lífeyrissjóðir taka við nauðungargreiðslum frá almenningi. Fólk ræður ekki hvort það greiðir í lífeyrissjóð eða sparar með öðrum hætti til ellinnar. Fáir hafa val um það í hvaða sjóð þeir greiða. Það hljómar ekki vel að ríkisbankarnir, sem fengið hafa milljarða í styrki frá skattgreiðendum á undanförnum árum, hafi lagt út fyrir stórum hlut í miklu áhættufyrirtæki. Það hljómar þó jafnvel enn verr ef nauðungarsjóðir eins og lífeyrissjóðirnir, sem eiga að gæta fjármuna fólks til efri áranna, hafi brotið lög til að festa fé í þessu fyrirtæki. Ef aðild að lífeyrissjóðum væri frjáls væri sjálfsagt að þeir hefðu frelsi til að fjárfesta í hverju sem er. En ábyrgir sjóðir myndu kunngera slíka stefnu fyrirfram.

Þeir sem hafa fram að þessu gert athugasemdir við svonefndan gagnagrunn á heilbrigðissviði eða annað sem tengist Íslenskri erfðagreiningu hafa jafnan verið sakaðir um óvild í garð þess frábæra framtaks sem stofnun fyrirtækisins er. Umræðan um gagnagrunnin ætti þó fyrst og fremst að snúast um hvor hefur betur, ríkið eða einstaklingurinn. Heilbrigðiskerfið er ríkisrekið og fjármagnað með sköttum. Fólk hefur því ekki val um það hverjum það greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu. Sjúklingum sem nýta sér hið ríkisrekna kerfi hefur verið talin trú um að upplýsingar um þá séu trúnaðarmál. Af umræðu sem átt hefur sér stað um miðlægan gagnagrunn hefur komið í ljós að þessi trúnaður hefur ekki alltaf verið virtur og ekki verið nægilega gætt að því að varðveita persónulegar upplýsingar um einstaklinga tryggilega. Ef til vill verður gagnagrunnurinn og umræðan um hann til þess að betur verður staðið að þessum málum í framtíðinni. Með ráðstöfun upplýsinga um einstaklinga í miðlæga gagngrunninn hefur ríkið þó tekið ákveðið skref sem verður ekki túlkað öðruvísi en að ráð einstaklingsins yfir upplýsingum um sjálfan sig séu afar lítil. Upplýsingum um látna einstaklinga, börn, fjarstadda og aðra sem geta ekki sagt sig sérstaklega úr grunninum verður ráðstafað í grunninn. Þeir sem telja að einstaklingurinn eigi að ráða sem mestu um eiginn hag hljóta að efast um þessa ráðstöfun. Þessi efi beinist að ákvörðunum ríkisins en ekki að Íslenskri erfðagreiningu.