Laugardagur 26. júní 1999

177. tbl. 3. árg.

Í Viðskiptablaðinu í vikunni kemur fram að bílainnflutningur er aðeins 6,9% af heildarinnflutningi. Þetta kemur sjálfsagt mörgum á óvart þar sem fréttir hafa verið tíðar af mikilli aukningu í innflutningi bíla að undanförnu og það oft sett í samband við viðskiptahalla sem reyndar hefur minnkað frá síðasta ári. Frá árinu 1987 til 1997 hækkaði aldur íslenska bílaflotans látlaust og var hann orðinn einn sá hæsti í Evrópu árið 1997 þegar hann tók að lækka aftur vegna aukins innflutnings. Vafalaust telja margir stjórnlyndir stjórnmálamenn nauðsynlegt að „slá á þensluna“ og koma í veg fyrir það með einum eða öðrum hætti að fólk kaupi nýjan bíl fyrir heimilið. Þeir verða þá líka að hafa það í huga að gamlir bílar eyða meira eldsneyti, þurfa meira af varahlutum og viðhaldi og eru óöruggir í samanburði við nýrri bíla. Þegar þetta er haft í huga og einnig að 20% aukning í bílainnflutningi samsvarar aðeins um 1% aukningu í innflutningi er ljóst að bíleigendur geta ekki axlað einir ábyrgðina af viðskiptahallanum. Þ.e.a.s. ef menn vilja endilega benda á einhvern sökudólg í þessu sambandi.

Það er raunar sérstök stefna Alþingis að landsmenn aki um á gömlum, lélegum og óöruggum bílum. Fyrst eru menn almennt lattir til þess að endurnýja bíla sína með háum sköttum á flest sem viðkemur bílnum. Stórir og öruggir bílar eru svo skattlagðir sérstaklega til að tryggja að aðeins hinir efnamestu geti keypt slíka bíla. Stjórnmálamenn af verri sortinni afsaka oft þá stefnu sína að skattleggja tóbak hrottalega að með því dragi úr reykingum og heilbrigðiskerfið spari. (Vef-Þjóðviljinn gefur ekki mikið fyrir þá speki enda hafa menn ekki val um það hvort þeir greiða til heilbrigðiskerfisins. Reykingamenn bera því ekki áhættuna af iðju sinni sjálfir.) Þessir pólítíkusar eru sömu mennirnir og skattleggja bíla þannig að sem flestir slasist í umferðinni.