Föstudagur 25. júní 1999

176. tbl. 3. árg.

„Þér er boðið – náttúrlega“ segir í auglýsingu sem keypt hefur verið á strætisvagnaskýlin í Reykjavík. Þar er verið að boða „menningarárið“ sem á víst að verða á næsta ári og það að þá verður Reykjavík ein af „menningarborgum Evrópu“. Og kæri skattgreiðandi, þér er boðið, náttúrlega.

Hér er sama sagan og venjulega þegar skattgreiðendum er boðið. Það eru líka þeir sem bjóða. Ríkið og borgaryfirvöld hafa ákveðið að eyða um hálfum milljarði króna af skattpeningum sérstaklega vegna þessa „menningarárs“. Því það á nú að standa glæsilega að „menningarárinu“ – svona fyrst Reykjavík er „menningarborg“, það er nú ekki svo lítill heiður. En muna menn hvernig á því stendur að Reykjavík varð ein af þessum „menningarborgum“? Fjöldi borga sóttist eftir þessum „titli“ og eftir miklar deilur og leiðindi var ákveðið að þær allar mættu kalla sig „menningarborgir“ þetta tiltekna ár. Og þessi titill er svo notaður til að herja enn meira fé út úr skattgreiðendum – „því Reykjavík er nú einu sinni ein af menningarborgum Evrópu“! Og nú ætla menningarvitarnir að láta greipar sópa. Það hefur meira að segja verið opnuð „skrifstofa Reykjavíkur-menningarborgar Evrópu“ og auðvitað hefur verið ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri þessa alls og mun hann skipuleggja fjárausturinn svo allt gangi nú hratt og vel fyrir sig. Svo eru hengdar upp auglýsingar til skattgreiðenda: Þér er boðið – náttúrlega! Af hverju auglýsir þetta fólk ekki til dæmis: „Þú átt að borga fyrir menninguna okkar – náttúrlega!“? Eða setur undir boðskortið sem nú hangir á strætóskýlunum: „Þú borgaðir þessa auglýsingu. Náttúrlega.“?

Því verður ekki neitað, að frá sjónarhóli menningarvitanna er það snjall leikur að efna til „menningarborgar“-titils sem þessa. Engin borgaryfirvöld þora að segja að þau geri akkúrat ekki neitt sérstakt fyrir „menningarborgina“ á „menningarárinu“. En hvenær ætli komi að því að menn taki höndum saman um að Reykjavík verði – þó ekki nema eitt ár – borg skattgreiðenda? Að sjálfumglöðum handhöfum menningar og þeim stjórnmálamönnum sem lúta þeim, verði sýnt í eitt skipti fyrir öll að skattgreiðendum er ekki eingöngu boðið, heldur algerlega nóg boðið?