Fimmtudagur 24. júní 1999

175. tbl. 3. árg.

Jeb Bush fylkisstjóri í Flórída hefur undirritað lög sem gera nemendum í lélegum fylkisskólum kleift að flytja sig yfir í einkaskóla á kostnað fylkisins. Með þessu hefur Bush tekið upp fyrsta ávísanakerfið sem nær yfir heilt fylki í Bandaríkjunum og mun þetta án vafa verða til að bæta menntun. Þetta er að vísu ekki fullkomið ávísanakerfi en ágætt skref í rétta átt. Enn betra væri að taka upp almennt ávísanakerfi, en framkvæmd þess er sú að allir nemendur (eða foreldrar þeirra) fá ávísun frá hinu opinbera sem nýta má til að greiða fyrir menntun. Þeir velja svo þann skóla sem þeim líst best á og því verða skólarnir að standa sig  vel til að fá nægilega marga nemendur til að reksturinn gangi upp.

Í ávísanakerfi nýtast kostir einkaframtaksins þó hið opinbera sé látið borga brúsann eins og nú er. Það sem gerist er að kostnaður lækkar vegna þess að þeir sem stjórna skólum fara að hugsa með öðrum hætti en nú er gert og keppast við að bjóða sem mesta og besta menntun fyrir sem minnst fé. Æskilegt væri að breyting sem þessi yrði næsta stóra mál á vegum menntamálaráðuneytisins og sveitarfélaganna hér á landi. Ef þessi leið væri farin losnaði borgarstjórinn í Reykjavík við að vera milliliður í samningum milli seljenda og viðtakanda þjónustunnar og bæjarstjórnin á Seltjarnarnesi þyrfti ekki að ræða um rekstur einstakra skóla svo dæmi séu nefnd. Það er skynsamlegra að nemendur (eða foreldrar fyrir þeirra hönd) ræði það milliliðalaust við kennara (eða skólastjórnendur) hvaða kröfur eru gerðar til skólastarfsins. Þar sem viðhorf til einkarekstrar hafa gerbreyst hér á landi á síðustu árum ætti framkvæmdin að vera vel möguleg sé viljinn fyrir hendi.