Miðvikudagur 23. júní 1999

174. tbl. 3. árg.

Yfirlætislegir vinstri menn hafa löngum reynt að eigna sér einum íslenska menningu. Reyna þeir óspart að telja sér og öðrum trú um að vinstri menn einir kunni að hafa þar nokkuð til mála að leggja. Þetta hugarfar skín í gegn um grein sem Sigurður A. Magnússon skrifaði í DV mánudaginn 21. júní. Þar segist hann hafa heimildir fyrir því að hægri menn lesi minna en vinstri menn og muni vera „fátækari í andanum“. Hvað sem þessi kenning kann að segja um andlega eiginfjárstöðu Sigurðar A. Magnússonar þá er líklegt að hún freisti margra til að álykta sem svo að hægri menn séu einfaldlega öllu vandfýsnari en hinir venjulegu lesendur Sigurðar.

Vefþjóðviljinn hugðist nú leiða þennan og ýmsan annan þótta þessa Sigurðar hjá sér. En þá hélt Sigurður áfram fullyrðingum sínum til að færa frekari sönnur á þá kenningu sína að hægri menn ættu ekki að koma nálægt menningarmálum. Eftir að Sigurður hafði reifað vitneskju sína um samræmdar lestrarvenjur hægrimanna fór hann að tala um Almenna bókafélagið sem starfrækt var hér á landi um rúmlega 40 ára skeið. Sigurður greindi frá því að það félag hefði verið stofnað „til höfuðs Máli og menningu“ og peningarnir ekki verið sparaðir. Hins vegar hefðu þar verið í forystu menn „sem höfðu næsta lítinn skilning á bókmenntum eða menningu yfirleitt auk þess sem fjölmennt bókmenntaráð“, skipað flokksdindlum, hefði verið „starfseminni fjötur um fót“ og hefði fyrirtækið endað illa og af þessu sæist að „hægri menn ættu helst að fást við eitthvað annað en menningarstarfsemi“.

Nú veit Vefþjóðviljinn ekki hvort þeir eru til sem taka mark á Sigurði A. Magnússyni og fullyrðingum hans.

Bókmenntaráð Almenna bókafélagsins
Bókmenntaráð Almenna bókafélagsins

En þeir sömu eru eflaust forvitnir að vita hverjir þeir voru sem skipuðu þetta bókmenntaráð. Flokksdindlarnir sem höfðu næsta lítinn skilning á bókmenntum eða menningu yfirleitt. Eigum við að telja þá upp? Þar sátu eftirtaldir ólæsir flokksdindlar: Tómas Guðmundsson, Gunnar Gunnarsson, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Guðmundur G. Hagalín, Kristmann Guðmundsson, Kristján Albertsson, Þorkell Jóhannesson, Jóhannes Nordal, Indriði G. Þorsteinsson, Sturla Friðriksson, Höskuldur Ólafsson og Birgir Kjaran.