Þriðjudagur 22. júní 1999

173. tbl. 3. árg.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð sýndi í gær helstu stærðir úr reikningum sínum fyrir fyrstu mánuði ársins. Kom í ljós að ríkið greiddi 4,4 milljónir af kostnaði flokksins, eða tæpan helming alls kostnaðar. Jafnframt kom fram í yfirlýsingu frá flokknum að ekki verði tekið við hærri framlögum en hálfri milljón króna frá einstökum aðilum. Ástæða þess er væntanlega sú að flokkurinn vill vera óháður einstökum aðilum og geta tekið afstöðu til mála án fjárhagslegt þrýsings. (Önnur ástæða getur líka verið sú að engum hefur dottið í hug að gefa VG meira en hálfa milljón króna, en gefum okkur til gamans að hin hafi vegið þyngra.)

Nú sér hver maður að sú fyrirætlan VG að taka ekki við hærri upphæðum en 500.000 krónum frá einstökum aðilum stenst ekki fyrst ríkið lagði 4,4 milljónir króna til framboðsins. VG hyggst líklega ekki endurgreiða 3,9 milljónir króna og því má spyrja hvort trúverðugleiki stjórnmálaflokka minnki ekkert við að þiggja helming tekna sinna frá ríkinu. Hefur það engar óæskilegar afleiðingar?

Jú, hætt er við að þetta hafi þær afleiðingar að stjórnmálaflokkurinn hafi síður skilning á nauðsyn þess að hið opinbera sýni aðhald en ella. Stjórnmálaflokkur sem þiggur stóran hluta tekna sinna frá hinu opinbera (og þetta á við um alla þá íslensku flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi, ekki aðeins VG) heldur frekar að sér höndum við niðurskurð en flokkur sem á engra hagsmuna að gæta af því að ríkisútgjöld séu sem mest. Með því að ríkið styrkir flokkana um háar fjárhæðir er verið að gera þá háða óráðsíu við ákvörðun útgjalda á Alþingi. Fulltrúar stjórnmálaflokkanna verða þannig hluti af þrýstihópunum sem krefjast sífellt aukinna útgjalda ríkisins í stað þess að gæta hagsmuna kjósenda, sem yfirleitt eru jafnframt skattgreiðendur.

Á sínum tíma varð Morgunblaðið fyrir nokkurri gagnrýni vegna tilrauna til leyna fréttum af dauða Díönu Spencer. Frú Spencer lést á laugardagskvöld en Morgunblaðið lét þess í engu getið fyrr en nokkrum dögum síðar þegar ljóst var að fréttin hafði borist milli bæja eftir öðrum leiðum. Það var því áhugamönnum um málefni tengd bresku konungsfjölskyldunni nokkur léttir að í Morgunblaðinu sem barst lesendum seinni partinn á laugardaginn var mikil grein um brúðkaup í konungsfjölskyldunni þar sem sagði: „Játvarður prins, yngsta barn Elísabetar Englandsdrottningar og Filippusar drottningarmanns, gekk að eiga heitmey sína Sophie Rhys-Jones á laugardag í kapellu heilags Georgs í Windsor kastala á Bretlandi“. Það voru lesendum hins vegar nokkur vonbrigði að engar myndir frá brúðkaupinu fylgdu með greininni. Það kom þó ekki að sök því skömmu eftir að blaðið barst lesendum mátti sjá brúðkaupið í beinni útsendingu í sjónvarpi.