Mánudagur 21. júní 1999

172. tbl. 3. árg.

Á morgun halda Bandaríkjamenn upp á að þá hefur meðaljóninn þar í landi greitt fyrir allan kostnað vegna skatta hins opinbera og reglna sem hið opinbera setur fólki, ef marka má útreikninga Americans for Tax Reform Foundation. 42 dögum áður, eða 11. maí, héldu Bandaríkjamenn upp á sinn skattadag, þ.e. þann dag ársins sem segja má að þessi sami meðaljón sé búinn að greiða fyrir bein útgjöld hins opinbera með sköttum. Þeir útreikningar koma frá Tax Foundation. Þeir 42 dagar sem þarna eru á milli eru kostnaður sem fólk ber vegna alls kyns reglna sem hið opinbera setur, en óhætt er að segja að hið opinbera hafi óendanlegt hugmyndaflug þegar að því kemur að finna upp á nýjum og nýjum reglum fyrir fólk til að fara eftir.

Skattadagurinn var 30. maí hér á landi þetta árið samkvæmt útreikningum Heimdallar, en það félag hefur haldið þennan dag hátíðlegan undanfarin ár. Óþarfi er að gera ráð fyrir að byrði meðalmanns hér á landi vegna reglugerða sé minni en sambærileg byrði í Bandaríkjunum. Þess vegna gefur það ágæta hugmynd um raunverulega byrði fólks vegna hins opinbera hér á landi að bæta 42 dögum við 30. maí til að finna út hvenær segja má að fólk losni undan útgjöldum og afskiptum hins opinbera. Sé þetta gert kemur í ljós að fólk er að vinna til 11. júlí á þessu ári fyrir kostnaði vegna skatta og reglna hins opinbera. Þetta þýðir með öðrum orðum að venjulegur maður hér á landi vinnur meira en helming ársins til að standa undir kostnaði vegna hins opinbera. Og svo eru til menn sem láta sér detta í hug að auka útgjöld hins opinbera!

Eitt sem vekur athygli í ofangreindum útreikningum um kostnað vegna reglna í Bandaríkjunum er hversu stór hluti kostnaðarins stafar af reglum sem sagðar eru eiga að þjóna þeim tilgangi að vernda umhverfið. Þar í landi, líkt og hér, er í tísku að setja hvers kyns reglur af þessu tagi og komast skynsemi og rök oft lítið að í þeirri umræðu. Mörg „lítil“ dæmi mætti nefna, eins og t.d. um sjúkrahús í Bandaríkjunum sem þurfti að færa vegna þess að það var sagt ógna híbýlum nokkurra flugna. Kostnaðurinn vegna þessa var talinn í milljörðum króna, en þó þykir fæstum Bandaríkjamönnum trúlegt að flugur séu í útrýmingarhættu þar í landi.

Stærra dæmi og alvarlegra er Kyoto-bókunin svokallaða sem Clinton hefur undirritað og áætlað er að muni kosta Bandaríkjamenn 104 milljarða Bandaríkjadala að framfylgja, en það jafngildir allmörgum dögum fyrir meðalmanninn svo notuð sé sú mælistika. Bandaríkjamenn geta þó huggað sig við að ólíklegt er talið að öldungadeild þingsins muni samþykkja bókunina, þannig að þeir sleppa þá með skrekkinn. Hins vegar munu Clinton og Gore, og þá sérstaklega hinn síðarnefndi, án nokkurs vafa reyna að þröngva ákvæðum bókunarinnar upp á Bandaríkjamenn með einhliða aðgerðum.