Opinber fjárhagsaðstoð við svonefnd þróunarlönd hefur oft verið gagnrýnd. Nú berast fréttir af því að G-7 ríkin ætli að tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans (WB) að fella niður skuldir sem nema alls um 50 milljörðum Bandaríkjadala eða tæplega 4.000 milljörðum íslenskra króna við fátækustu ríki heims. Það er því ef til vill ekki úr vegi að rifja upp helstu rökin gegn aðstoð af þessu tagi sem stundum er nefnd aðstoð án þróunar í stað þróunaraðstoðar.
Fátækustu ríki heims eru þau sem lengst hafa búið við harðstjórn af einhverju tagi. Harðstjórar eru ekki hrifnir af frjálsum markaði enda byggir frjáls markaður á því að einstaklingarnir taki sjálfir ákvarðanir um sín mál og hafi rétt til að ráðstafa eignum sínum að vild. Frjáls markaður snýst um valddreifingu. Frjáls markaður hentar því ekki einræðisherrum enda grípa þeir víðast hvar til víðtækra ríkisafskipta, þ.e. sósíalisma. Efnahagsaðstoð til ríkja þar er ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar af stjórnvöldum leiða annars vegar til þess að stjórnvöld viðkomandi lands styrkja stöðu sína og hins vegar beina þær kröftum landmanna í rangan farveg. Dæmin frá þróunarlöndunum um slíkar fjárfestingar sem farið hafa í súginn er óteljandi. Fjárfestingar stjórnvalda í þróunarlöndum eru ekki frábrugðnar fjáraustri íslenskra stjórnvalda til laxeldis og loðdýraræktar eða til fyrirhugaðrar byggingar tónlistarhúss svo nærtæk dæmi séu nefnd.
En er ekki fjármagn forsenda atvinnusköpunar og framfara? Það er rétt að stundum þarf fjármagn til ákveðinni verkefna en ef þau eru arðbær geta menn yfirleitt fengið lánsfé, annaðhvort innanlands eða erlendis frá. Og það má vitna til orða Peters Bauers lávarðar og prófessors við LSE í fyrirlestri sem hann flutti í Reykjavík árið 1984 um þróunarhjálpog birtur var í tímaritinu Frelsinu 1.tbl. 1985: Þeir sem halda því fram að gjafafé frá útlöndum sé nauðsynlegt, til þess að framfarir geti orðið með fátækum þjóðum, ruglast á orsök og afleiðingu. Það eru framfarir í atvinnumálum, sem geta af sér eignir og peninga. Það eru ekki eignir og peningar, sem geta af sér framfarir í atvinnumálum. Bauer bætti svo við: Það ræður engum úrslitum um framþróun í atvinnumálum, hversu mikið fé er tiltækt í upphafi. Væri svo, væri illskiljanlegt hvers vegna fjöldi fólks hefur brotist úr sárustu fátækt í bjargálnir á tiltölulega skömmum tíma, til dæmis innflytjendur í Norður-Ameríku og Suðausturasíu. Það varðar miklu meira, hvernig fé er notað en hversu mikið það er.
Í ritstjórnargrein í Wall Street Journal á föstudaginn var fjallað um fyrirhugaða niðurfellingu á skuldum þróunarlandanna. Þar segir að það geti vel verið að niðurfelling skulda við fátæka hljómi vel og sé hampað jafnt í Vatíkaninu sem Hollywood en skattgreiðendur þeirra ríkja sem fjármagna WB og IMF eigi að minnast þess áður en þeir taka þessu fagnandi að það þarf tvo til að skuldir hrannist upp, skuldara og kærulausan lánveitanda. Það sé rétt að minnast þess að það voru einmitt WB og IMF sem létu lánsfé af hendi rakna til verkefna á vegum spilltra ríkisstjórna. Þetta lánsfé sé nú að sliga viðkomandi ríki. Þá stinga þessir sömu lánveitendur upp á að skuldirnar verði felldar niður!
WSJ segir að skuldasúpan sem lönd eins og Úganda, Mósambik og Guyana sitja í sé einungis tilkomin vegna skuldasöfnunar hins opinbera. Þar komi lán á vegum einkabanka til einkafyrirtækja ekki við sögu. Lélegt stjórnarfar í þessum löndum fæli einkafyrirtæki frá en laði hins vegar að sér hjálparstofnanir. Nær allt erlent fjármagn sem borist hafi til þessara landa árum saman hafi komið í gegnum hjálparstofnanir, víkjandi lán, ríkisstyrktar vöruúttektir og hvers kyns opinbert dellumakerí. WSJ segir að ef til vill væri þessi niðurfelling skulda einhvers virði ef skriffinnarnir hjá WB, IMF og öðrum þróunaraðstoðarstofnunum hefðu lært eitthvað að endalausum mistökum sínum. Á því séu þó engar líkur. Starf kerfiskarlanna felist einmitt í því að skola fjármunum skattgreiðenda á Vesturlöndum niður um klósettskálina. Það megi því allt eins búast við því að skuldasetning þessara fátæku ríkja haldi áfram enda verði gömlu skuldirnar ekki lengur víti til varnaðar.