Þriðjudagur 29. júní 1999

180. tbl. 3. árg.

DV var ánægt með sig í gær. Blaðið birti stærðar frétt á síðu tvö með stórri litmynd af blaðamanni á vettvangi. DV upplýsti nefnilega að í Ártúnsbrekkunni, „rétt hjá Ingvari Helgasyni hf. hafa útigangsmenn reist sér hreysi til þess að sofa í.“ Lýsti DV hreysinu svo að það væri „reist með brettum sem eru negld hvert við annað“ og var það „í trjáþyrpingu sem hylur skýlið svo til algjörlega og er erfitt að sjá það frá veginum.“. En þó skýlið sé nánast ósýnilegt þá fer það ekki fram hjá blaðamönnum DV sem grípa þegar í stað til nauðsynlegra ráðstafana: „Lögreglan var komin í málið eftir ábendingu DV en hún vaktaði skýlið þegar DV fór í prentun og beið eftir heimilisfólki.“ Stoltir blaðamenn greindu frá því að lögreglan myndi fjarlægja skýlið svo enginn þarf að óttast að útigangsmenn fái skjól í þessari trjáþyrpingu eða annars staðar þar sem blaðamenn DV geta þefað þá uppi. Árvökulir starfsmenn DV geta því verið ánægðir með dagsverkið og skrifað sína frétt og birt með litmynd af einum sinna manna og yfirfyrirsögninni „Lögreglan vaktaði meint rónabæli“ enda geta þeir glaðst yfir því að einhvers staðar líður einhverjum útigangsmanni örlítið ver í dag en í gær.

Tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum hafa lækkað á síðustu árum að því er fram kemur í grein á heimasíðu Samtaka iðnaðarins. Þetta er út af fyrir sig ánægjuleg þróun en það skyggir nokkuð á gleðina að innheimta vörugjalda er flókin og kostnaðarsöm, enda eru þau „torskilin blanda 13 flokka verð- og magngjalda,“ eins og það er kallað í greininni. Skattkerfið hér á landi (eins og raunar víðast hvar) er afar illskiljanleg flækja sem veldur bæði einstaklingum og fyrirtækjum miklum kostnaði, bæði beint og óbeint. Niðurfelling vörugjalda væri mikið fagnaðarefni, bæði vegna þess að hún mundi spara almenningi mikinn óbeinan og beinan kostnað og eins vegna þess að hún mundi lækka tekjur ríkissjóðs, sem er mikið þjóðþrifamál.