Miðvikudagur 30. júní 1999

181. tbl. 3. árg.

Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóns Helgasonar prófessors. Jón var um áratugi forstöðumaður Arnamagnæanske Institut í Kaupmannahöfn og prófessor við Hafnarháskóla. Hann er þó þekktari fyrir ljóð sín og þó þau séu misjafnlega geðfelld – enda orti Jón ekki alltaf af mikilli velvild í garð yrkisefnisins – bera þau mark vandvirkni og stílgáfu höfundarins. Eftir Jón liggur ein bók með frumortum ljóðum, Úr landsuðri, sem kom út árið 1939. Þar er meðal annars þetta:

Tveir fánar

Öðrum er lotið í öllum hnattarins beltum,
og að honum sópast úr löndunum stórfelldur gróði,
hann blaktir þungur af allra úthafa seltum
og orustublóði.

Hinn er lítils metinn og ungur að árum,
og engum finnst til um það vald sem á bak við hann stendur:
vanmegna smáþjóð sem velkist á Dumbshafsins bárum,
vopnlausar hendur.

Eitt er þó nálega álíka veglegt hjá báðum,
því örlögin veittu oss í smæð vorri dýrmætan frama:
Ráðherratalan á Íslandi og Englandi er bráðum
orðin hin sama.

Fimm þjóðir í Suður-Ameríku, Brasilía, Argentína, Paragvæ, Úrugvæ og Chile, hafa ákveðið að hefja viðræður við Evrópusambandið um nýtt fríverslunarsvæði. Þetta eru góð tíðindi því meira frelsi í viðskiptum bætir jafnan kjör fólks í þeim ríkjum sem þess njóta. Skilningur á þessari staðreynd hefur aukist mikið á síðustu árum og er nú svo komið að þeir menn eru vandfundnir sem mótmæla henni. Það þýðir þó ekki að þar með samþykki allir fyrirvaralaust að auka fríverslun, því ríkir sérhagsmunir koma yfirleitt í veg fyrir að hún komist snurðulaust á. Þannig er t.d. búist við að ESB muni þvælast fyrir þegar kemur að því að ræða viðskipti með landbúnaðarafurðir á milli Evrópu og Suður-Ameríku. Frelsi í þeim viðskiptum mundi þó koma neytendum í Evrópu afar vel, en ekki síður íbúum Suður-Ameríku. Má þar t.d. vitna til orða forseta Brasilíu sem féllu vegna þessara væntanlegu viðræðna um fríverslunarsvæði: „Áhrifin í Brasilíu, sérstaklega fyrir hina fátækari, kæmu þegar í stað í ljós ef ESB hleypti landbúnaðarafurðum okkar inn. Því meiri viðskipti, þeim mun meiri verður ábati okkar.“